Þrír af hverjum fjórum kaupmönnum á Norðurlöndunum eiga erfitt um vik að keppa við verð sem býðst í netverslunum, samkvæmt könnun Valitor. Björgvin Ingi Ólafsson, sviðsstjóri Deloitte Consulting, segir að rekstur netverslana hafi almennt gengið erfiðlega. Afhending vara sé dýr sem hafi leitt í mörgum tilfellum til taprekstrar.

„Þrátt fyrir að við höfum heyrt lengi að netverslun sé framtíðin er ekki enn búið að leysa hvernig græða megi á henni. Reynslan um allan heim, á Norðurlöndunum og á Íslandi, er að gríðarlega erfitt sé að græða á netverslun og leitun er að arðsömum netverslunum. Meira að segja Amazon græðir ekki á netverslun.

„Meira að segja Amazon græðir ekki á netverslun,“ segir Björgvin Ingi.
NordicPhotos/Getty

Viðskiptavinir vænta þess að afhending varanna sé því sem næst ókeypis þegar raunveruleikinn er að síðustu metrar afhendingarinnar kosta vissulega. Það er flækja sem fáum reynist auðvelt að greiða úr,“ segir hann og nefnir að ýmsir hafi því farið þá leið að hvetja viðskiptavini á netinu til að sækja vörur í verslanir sínar.

Afgreiðslutími verslana rúmur

Björgvin Ingi bendir á að afgreiðslutími verslana á Íslandi sé rúmur og þær sé víða að finna. Enn fremur séu flestir sem reka heimili í vinnu á daginn og því ekki heima til að taka á móti vörum nema á kvöldin.

„Sérhæfðar verslanir á borð við apótek hafa á hinum Norðurlöndunum einna helst náð árangri í netverslun.“

„Eldum rétt er á meðal netverslana sem hafa gengið vel hér á landi enda hefur fyrirtækið náð sterkri stöðu á markaði. Engu að síður keyra flestir heim úr vinnu og eiga því hægt um vik með að grípa skyndibita eða matvörur á leiðinni heim. Sérhæfðar verslanir á borð við apótek hafa á hinum Norðurlöndunum einna helst náð árangri í netverslun,“ segir hann.

Að sögn Björgvins Inga dregur það úr erlendri netverslun hérlendis að það er ekki jafn álitlegt að versla til dæmis hjá Amazon og fyrir þá sem búa í Bandaríkjunum. „Þar er hægt að fá vörur afhentar innan klukkustundar en það tekur nokkra daga að fá þær sendar til Íslands. Í ofanálag þarf að tollafgreiða vörurnar og kostnaðarsamt er að skila þeim,“ segir hann.

Afsláttardagar á borð við Svartan föstudag gera það að verkum að færri versla þá daga þegar afslættir standa ekki til boða, að mati kaupmanna.
NordicPhotos/Getty

Svartur fössari gerir aðra söludaga erfiðari

Níu af hverjum tíu kaupmönnum á Norðurlöndunum telja að afsláttardagar á borð við Svartan föstudag geri það að verkum að erfiðara er að laða viðskiptavini í verslanir þegar ekki er boðið upp á rífleg tilboð, samkvæmt könnun Valitor.

Björgvin Ingi segir að ríflegir afslættir séu neytendum til hagsbóta en þeir leiði ekki endilega til góðs rekstrar verslana. „Almennir afslættir skapa ekki tryggð á meðal viðskiptavina verslana,“ segir hann.

„Ég er lítill aðdáandi háafsláttardaga eins og Svarts föstudags því þá er öllum önglum kastað út með von um að lágvirðis viðskiptavinir umbreytist í hávirðis viðskiptavini án þess að sérstök rök hnígi til þess að slík umbreyting verði. Að öllum líkindum er verið að selja viðskiptavinum með litla tryggð vörur með lítill framlegð með miklum tilkostnaði og þar af leiðandi takmörkuðum ávinningi,“ bætir Björgvin Ingi við.