Ólafur Örn Nielsen hefur gegnt stöðu framkvæmdastjóra hjá hugbúnaðarfyrirtækinu Kolibri frá árinu 2015 en fyrirtækið var nýlega verðlaunað á ráðstefnu Viðskiptaráðs og Manino fyrir framsækna stjórnunarhætti. Ólafur segist hafa mikla þörf fyrir að skilja hvernig tækni og samspil hennar við fólk virkar.

Hver eru þín helstu áhugamál?

Tækni, hjólreiðar og matreiðsla. Ég er mikið nörd og hef alltaf haft mikla þörf fyrir að skilja hvernig tækni og samspil hennar við fólk virkar. Ég get svo ekki sleppt því að minnast á matreiðslu en ástríðu fyrir henni fékk ég sennilega með móðurmjólkinni.

Hvernig er morgunrútínan þín?

Ég er mikill morgunmaður og yfirleitt vaknaður fyrir klukkan 6. Það er gæðatími sem ég eyði með sjálfum mér og skoða þá fréttir, tölvupóst og skipulegg daginn. Svo líður yfirleitt ekki á löngu þar til 11 mánaða gömul dóttir okkar vill kíkja fram með pabba sínum.

Hver er bókin sem þú ert að lesa eða last síðast?

Akkúrat núna er ég að hlusta á bókina Tvísaga sem fjallar um fjölskyldusögu Ásdísar Höllu Bragadóttur. Það er átakanleg saga sem hefur kennt mér að vera þakklátur fyrir það sem maður hefur. Svo er ég að lesa bókina Time Crunched Cyclist um hvernig hægt er að hámarka árangur við hjólreiðaæfingar með lítinn tíma aflögu.

Hverjar eru helstu áskoranirnar í starfinu?

Kolibri hefur tvöfaldast að stærð á rúmlega tveimur árum og því hafa fylgt alls kyns áskoranir. Það hefur falið í sér mikla aðlögun á því hvernig við vinnum, eigum samskipti og skipuleggjum okkur.

Hverjar eru helstu áskoranirnar í rekstrarumhverfinu?

Langflest fyrirtæki eru að bregðast við áskorunum í viðskiptaumhverfinu með því að hugsa meira stafrænt. Þjónusta Kolibri gengur út á að hjálpa fyrirtækjum í gegnum þessar breytingar. Hlutirnir eru að gerast gífurlega hratt og áskoranirnar felast í því að halda okkur ferskum og vera sífellt skrefi á undan.

Hvaða breytingar sérðu fyrir þér hjá Kolibri á næstu árum?

Við munum halda áfram að vaxa inn á nýjar og spennandi brautir. Við ætlum okkur að vera í fararbroddi þegar kemur að þeim breytingum sem fyrirtæki eru að ganga í gegnum. Við trúum því einnig að þjónusta okkar eigi erindi á erlenda markaði og eigum okkur draum um samkeppnishæft Ísland hvað það varðar.

Ef þú þyrftir velja allt annan starfsframa, hver yrði hann?

Þá væri ég klárlega kokkur! Ég hef gífurlega ástríðu fyrir matreiðslu og leita alltaf í hana þegar ég þarf að kúpla mig út úr daglegu amstri.

Hvar sérðu þig eftir tíu ár?

Það er manni einhvern veginn eðlislægt að hugsa þessa spurningu út frá starfinu sínu en ég sé mig sem hamingjusaman fjölskylduföður í góðu líkamlegu og andlegu formi með reynslu og þekkingu sem ég verð stoltur af.

Helstu drættir


Störf:

Forritari hjá mbl.is 2006-2009
Forstöðumaður stafrænna viðskipta Eddu útgáfu 2009-2010
Sérfræðingur í vefgreiningu hjá mbl.is 2010-2012
Vefmarkaðsstjóri WOW air 2012-2013
Framkvæmdastjóri Form5 2013-2014
Ráðgjöf, sala og markaðssetning hjá Kolibri 2014-2015
Ráðinn framkvæmdastjóri Kolibri haustið 2015

Fjölskylduhagir:

Giftur Árdísi Ethel Hrafnsdóttur, lögfræðingi hjá Eik fasteignafélagi. Saman eigum við Katrínu Viktoríu og stjúpdóttur mína, Önju Fanneyju.