Eik fasteignafélag hagnaðist um 2.968 milljónir króna á síðasta ári og jókst hagnaðurinn um liðlega fimmtán prósent frá árinu 2018 þegar hann var 2.572 milljónir króna. Leigutekjur fasteignafélagsins voru alls 7.393 milljónir króna í fyrra og jukust um ríflega níu prósent á milli ára.

Eik, sem átti í lok síðasta árs fasteignir að bókfærðu virði tæplega 98 milljarða króna, birti stjórnendauppgjör fyrir síðasta ár eftir lokun markaða í gær.

Samkvæmt uppgjörinu nam hagnaður fasteignafélagsins fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) 5.562 milljónum króna í fyrra borið saman við 5.218 milljónir króna árið 2018.

EBITDA ársins var við neðri mörk þess sem stjórnendur félagsins höfðu spáð en í afkomutilkynningu félagsins segir að munurinn á spánni og endanlegum niðurstöðum ársins hafi eingöngu komið til vegna lakari afkomu Hótels 1919 vegna annars vegar verri herbergjanýtingu eftir gjaldþrot WOW air og rasks vegna endurbóta á herbergjum hótelsins.

Rekstrartekjur Eikar námu 8.656 milljónum króna í fyrra en þar af námu leigutekjur 7.393 milljónir króna, eins og áður sagði. Aðrar tekjur, þar með talið tekjur vegna Hótels 1919 og af sameignum, námu 1.264 milljónir króna.

Rekstrargjöld fasteignafélagsins voru samanlagt 3.094 milljónir króna á síðasta ári en stærstu gjaldaliðir félagsins voru að venju fasteignagjöld, tryggingar og vatns- og fráveitugjöld sem námu samanlagt 1.315 milljónir króna. Hækkuðu þessir liðir um rúm 8,2 prósent á milli ára.

Þá var matsbreyting fjárfestingareigna félagsins um 2.170 milljónir króna í fyrra en stærstu liðirnir til hækkunar voru verðbólga, hærri markaðsleiga og nýir samningur. Á móti var stærsti liðurinn til lækkunar um það bil átta prósenta raunlækkun á hótelum.

„Meiri óvissa ríkir á hótelmarkaðinum vegna fækkunar ferðamanna og aukins framboðs á komandi misserum. Metur félagið það svo að markaðsleiga gæti lækkað samhliða,“ segir í stjórnendauppgjöri Eikar.

Samkvæmt fjárhagsáætlun félagsins fyrir árið 2020 munu tekjur samstæðunnar verða 8.939 milljónir króna, gjöld 3.250 milljónir króna og EBITDA alls 5.689 milljónir króna, sé miðað við 2,5 prósenta jafna verðbólgu.