TF-PRO, flug­vél WOW air sem fljúga átti með far­þega frá Mon­t­réal í Kanada til Íslands, var kyrr­sett í gær­kvöldi að beiðni leigu­sala vélarinnar. Frá þessu er greint á mbl.is en í morgun birtust fréttir þess efnis að fluginu hafi verið af­lýst vegna tækni­legra örðug­leika. 

Í frétt mbl.is segir að WOW air hafi misst nýtingar­réttinn á TF-PRO ný­verið vegna brota á samnings­skil­málum. Þannig hafi eig­andi vélarinnar, Jin Shan 20 Ireland Company Limited, sett vélina í verk­efni annars staðar. 

Í fréttinni segir að til standi að önnur vél WOW, TF-DOG, verði send til Mon­t­réal í þeim til­gangi að koma far­þegunum heim. TF-DOG er ný­komin úr flugi frá Frankfurt til Kefla­víkur en við­búið er að hún ferji far­þegana í Mon­t­réal heim til Ís­lands í kvöld.

WOW er með tvær vélar á leigu frá Jin Shan 20. Áðurnefnd TF-PRO auk TF-NOW, sem WOW hefur verið með í leiguverkefnum í Bandaríkjunum og á Kúbu. 

Fregnir herma að tap WOW air á síðasta ári hafi numið 22 milljörðum króna. Lausa­fjár­staða fé­lagsins er þá nei­kvæð um 11 milljónir dala, jafn­virði 1,4 milljarða króna og eigið fé nei­kvætt um 111 milljónir dala, jafn­virði ríf­lega 13 milljarða króna. 

Til­kynnt var um við­ræðuslit Ice­landair og WOW á sjötta tímanum í gær. Um­ræddar við­ræður voru stuttar en þær hófust á föstu­dag eftir að upp úr flosnaði milli WOW og Indigo Partners. Um síðustu helgi viðruðu for­svars­menn WOW hug­myndir við stjórn­völd um ríkis­­á­byrgð á lána­línu til fé­lagsins frá Arion banka.