Leigufélagið Alma, sem áður hét Almenna leigufélagið, hefur verið sett í formlegt söluferli. Það er Kvika banki sem hefur umsjón með ferlinu, samkvæmt heimildum Markaðarins, og var stutt fjárfestakynning send út til ýmissa fjárfesta fyrr í vikunni

Heildareignir Ölmu, sem er næststærsta leigufélag landsins með um 1.200 íbúðir, námu um 46,6 milljörðum króna um mitt þetta ár og var eigið fé um 12,4 milljarðar. Rekstrartekjur voru 1.335 milljónir á tímabilinu og drógust saman um 146 milljónir frá fyrra ári.

Leigufélagið er í eigu fagfjárfestasjóðs í rekstri GAMMA, dótturfélags Kviku, og hefur verið stefnt að því að slíta sjóðnum á næsta ári. Upphaflega stóð til að skrá Ölmu á markað en horfið var frá þeim áformum í fyrra en rekstur félagsins hafði þá verið undir væntingum og aðstæður á mörkuðum ekki taldar fýsilegar.