Íslenska nýsköpunarfyrirtækinu Flow hefur verið boðið að sýna hugleiðsluhugbúnað sinn á tveimur viðburðum World Economic Forum í Davos sem verða haldnir í janúar í tilefni 50 ára afmælis samtakanna.

Kristín Hrefna Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri Flow, segir mikla spennu innan fyrirtækisins yfir því að fá að hitta helstu þjóðarleiðtoga heims og leiðtoga stórfyrirtækja, og kynna þeim hugbúnað Flow sem er framleiddur fyrir sýndarveruleika.

„Kannski náum við að fá Donald Trump til þess að hugleiða með Flow. Ég hugsa að hann hefði gott af því að bregða sér í íslenska náttúru á örskotstundu með hjálp Flow og hugleiða svolítið,“ segir Kristín Hrefna og bætir við að teymið sé þó spenntara fyrir því að hitta Grétu Thunberg.

Fjölmörg íslensk fyrirtæki hafa nú þegar gerst áskrifendur af fyrirtækjaþjónustu Flow sem býður aðgang að nútíma hugleiðsluaðferðum í gegnum hátækni sýndarveruleikans og hugleiðsluvinnustofur.

Vara Flow byggir á myndefni úr íslenskri náttúru sem tekið er af verðlauna kvikmyndagerðarmönnunum, Arni & Kinski, en þeir gerðu meðal annars myndbönd fyrir Sigur Rós og Snow patrol. Þeir búa til listaverk úr hverri hugleiðslu þegar þeir tvinna saman myndefnið, tónlistina og leiða njótendur inn í annan heim með þaulreyndum hugleiðslukennurum.

Flow var stofnað árið 2016 og vann Flow Gulleggið, frumkvöðlakeppni Icelandic Startups árið 2018. Árið 2019 lauk félagið 118 þúsund evra fjármögnun í gegnum fjárfestingarvettvanginn Funderbeam og hefur jafnframt fengið tvo styrki frá Tækniþróunarsjóði upp á samtals 60 milljónir króna.