Hlutafé S4S var nýverið lækkað um 134 milljónir króna en ekki hækkað um sömu fjárhæð, líkt og greint var frá í Markaðnum á miðvikudaginn. Lækkun hlutafjár er leið til að greiða hluthöfum arð.

Beðist er velvirðingar á mistökunum.

Bjarni Ármannsson, forstjóri Iceland Seafood International og fjárfestir, á 40 prósenta hlut í fyrirtækinu, Pétur Þór Halldórsson á einnig 40 prósenta hlut og Hermann og Georg Kristjánsson eiga tíu prósenta hlut hvor.

Samstæðan, sem rekur jafnframt Skor.is og AIR, velti 3,6 milljörðum króna árið 2019 og jukust tekjurnar um fimm prósent á milli ára. Hagnaðurinn nam 117 milljónum króna og jókst um sex prósent á milli ára. Arðsemi eiginfjár var 19 prósent á árinu 2019. Eiginfjárhlutfallið var 42 prósent við árslok 2019. Árið 2019 var greiddur 100 milljón króna arður og 76 milljónir árið áður.

Velta hjá íslenskri verslun jókst um ellefu prósent á milli áranna 2019 og 2020. Vefverslun mældist sjö prósent af innlendri verslun og óx um 152 prósent á milli ára. Erlend verslun dróst saman um 60 prósent, samkvæmt gögnum Rannsóknarseturs verslunarinnar.