Það kann ekki góðri lukku að stýra að sífellt færri standi undir skattgreiðslum til hins opinbera, sem aftur stendur undir launagreiðslum til opinberra starfsmanna. Slík þróun leiðir óhjákvæmlega til aukinna álaga, bæði á einstaklinga og fyrirtæki. Þetta segir Anna Hrefna Ingimundardóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins (SA), í samtali við Markaðinn.

Fram kom í greiningu SA að starfsfólk í atvinnugreinunum opinberri stjórnsýslu, fræðslustarfsemi og heilbrigðis- og félagsþjónustu, sem að mestu eru reknar af ríki og sveitarfélögum, fjölgaði um níu þúsund frá september 2017 til september 2021. Starfsfólki í einkageiranum fækkaði á sama tíma um átta þúsund.

„Það stendur upp á ríki og sveitarfélög að skýra þessa þróun og varpa ljósi á það hvernig hún sundurliðast,“ segir hún

Samkvæmt úrvinnslu Hagstofunnar á skattskrám fjölgaði starfsfólki á íslenskum vinnumarkaði um 1.000 á síðustu fjórum árum, þ.e. frá september 2017 til og með september 2021.

Starfsfólki á almennum vinnumarkaði fækkaði um 5.500 eða 4 prósent en starfsfólki hjá hinu opinbera fjölgaði á sama tíma um tæplega 7.000. Skiptingin hjá hinu opinbera var þannig að fjölgunin var 2.400 hjá ríkinu en 4.300 hjá sveitarfélögunum

Anna Hrefna Ingimundardóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins.