Fjármála- og efnahagsráðherra, Bjarni Benediktsson, hefur lagt fram tillögur að breytingum við aðra umræðu fjárlagafrumvarps ársins 2023 í fjárlaganefnd Alþingis, þar sem gert er ráð fyrir auknum framlögum til nokkurra veigamikilla málaflokka. Samtals nemur hækkunin um 37 milljarða íslenskra króna.
Þyngst vega heilbrigðismál, þar sem lögð er til rúmlega 12 milljarða króna aukning en auk þess er gert ráð fyrir auknum framlögum til löggæslumála, málefna öryrkja og fatlaðs fólks, orkumála og nýsköpunar.
Í tilkynningu frá ráðuneytinu kemur fram að af þeim 12,2 milljörðum króna sem lagðir eru til í heilbrigðismál er gert ráð fyrir að 4,3 milljarðar renni í að styrkja Landspítalann, Sjúkrahúsið á Akureyri og heilsugæsluna.
Vinna niður biðlista eftir liðskiptiaðgerðum
Auk þess er lögð til hækkun til að tryggja svigrúm til upptöku nýrra lyfja, ásamt verkefnum til að auðvelda heilbrigðiskerfinu að glíma við eftirköst kórónuveirufaraldursins. Meðal þeirra er átak í að vinna niður biðlista eftir liðskiptaaðgerðum ásamt því sem framlög eru aukin til heimahjúkrunar og aðgerða til að dreifa álagi í heilbrigðisþjónustu.
Þá kemur fram í tilkynningu ráðuneytisins að auka eigi framlög til lögreglunnar um 900 milljónir til að auk málsmeðferðarhraða og að setja eigi 500 milljónir aukalega í aðgerðir gegn skipulagðri brotastarfsemi.
Þá er lagt til að styrkja Landhelgisgæsluna með 600 milljónir króna hækkun, meðal annars vegna aukins eldsneytiskostnaðar, endurnýjunar búnaðar og leigu nýs flugskýlis.
Frítekjumark öryrkja hækkað
Lagt er til að framlög til félags-, húsnæðis- og tryggingamála hækki um 3,7 milljarða króna en af því fer um einn milljarður í það að hækka frítekjumark atvinnutekna öryrkja í 200.000 krónur á mánuði.
Þá á að setja fimm milljarða í ýmist verkefni sem tengjast fjölgun flóttafólks og umsækjendum um alþjóðlega vernd, ásamt stuðningi við Úkraínu.
Hækkun útsvars
Þá er gert ráð fyrir því að ríkissjóður gefi eftir fimm milljarða króna af tekjuskatti einstaklinga á móti samsvarandi hækkun í útsvarstekjum sveitarfélaga til að bæta afkomu þeirra í tengslum við stöðu á málaflokki fatlaðs fólks. Gert er ráð fyrir að ríki og sveitarfélög geri með sér sérstakt samkomulag um þessar breytingar sem komi sem viðauki við fyrri samkomulög um fjármögnun málaflokksins.
Áframhaldandi orkuskipti og átak í jarðhitaleit
Af öðrum málum má nefna að lögð er til hækkun til nýsköpunar, rannsókna og þekkingargreina sem nemur 5,5 milljörðum króna en stærsti hluti þess er annars vegar fjórir milljarðar til að mæta áætlaðri fjárþörf vegna endurgreiðslna til kvikmyndagerðar á næsta ári og hins vegar 1,3 milljarðar króna vegna uppfærðrar áætlunar á styrkjum til fyrirtækja vegna endurgreiðslna á rannsókna- og þróunarkostnaði.
Tæpir tveir milljarðar í orkumál
Lögð er til 1,7 milljarða króna hækkun á málefnasviði orkumála. Skýrist það af eins milljarða króna tillögu um stuðning við kaup bílaleiga á hreinorkubílum ásamt því að lagt er til að flytja 550 milljónir af málefnasviði umhverfismála til að styrkja Orkusjóð tímabundið í tengslum við aðgerðaáætlun í loftslagsmálum og 150 milljónir tímabundið til þriggja ára í jarðhitaleitarátak.
Í tilkynningu ráðuneytisins segir að framlög til flestallra veigamikilla málaflokka hafi vaxið verulega undanfarin ár og geri það áfram í fjárlagafrumvarpi næsta árs. Þá er líka tekið fram að þrátt fyrir aukin útgjöld sé lögð rík áhersla á að styrkja stöðu ríkisfjármálanna og hvika ekki frá því meginmarkmiði að stöðva hækkun skuldahlutfalla á næstu árum.
„Í ár hefur dregið hratt úr miklum hallarekstri ríkissjóðs árin 2020 og 2021 sem ætlað var að draga úr áhrifum heimsfaraldursins á fjárhag heimila og fyrirtækja. Sú ráðstöfun gerði samfélaginu mögulegt að nýta þau tækifæri sem rénun faraldursins hafði í för með sér. Efnahagsbatinn hefur leitt til aukinna tekna ríkissjóðs og þess að skuldahlutföll hins opinbera eru mun lægri en óttast var fyrir aðeins nokkrum misserum. Eftir hraðan efnahagsbata er nú svo komið að nokkur spenna hefur myndast í þjóðarbúinu. Við þær aðstæður er mikilvægt að ríkisfjármálastefnan rói ekki í gagnstæða átt við stefnu Seðlabankans,“ segir í tilkynningunni sem hægt er að kynna sér hér.