Eignaverðshækkanir hafa stýrt vaxtastefnu Seðlabankans. Það gerðist á árunum 2004-2007, 2016-2017 og um þessar mundir. Þetta sagði Ásdís Kristjánsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, í sjónvarpsþætti Markaðarins á Hringbraut á miðvikudaginn.

Ásdís birti grein í Markaðnum á miðvikudaginn þar sem hún varpaði fram þeirri spurningu hvort húsnæðisliður sem sveiflist upp og niður eftir því hvernig skipulagsmálum sé háttað í Reykjavík eigi yfirhöfuð heima í verðbólgumarkmiði Seðlabankans.

Seðlabankinn hækkaði síðastliðinn miðvikudag stýrivexti um 25 punkta í 1,5 prósent til að stemma stigu við verðbólgu sem er 4,4 prósent og má einkum rekja til hækkandi húsnæðisverðs. Þegar húsnæðisverð er ekki tekið með í reikninginn er verðbólga við markmið Seðlabankans sem er 2,5 prósent.

Ásdís sagði að hækkandi húsnæðisverð stafi fyrst og fremst af framboðsskorti, of lítið byggt og of fáum lóðum úthlutað. þótt launahækkanir og vaxtalækkanir Seðlabankans í Covid-19 hafi einnig stuðlað að hækkandi fasteignaverði.

Ásdís ræddi stýrivaxtaákvörðun Seðlabankans og þær hugmyndir sem hún reifaði í áðurnefndri greinin í sjónvarpþættinum Markaðurinn sem sýndur var á miðvikudaginn.