Tilnefningarnefnd Sýnar leggur til að þau Hilmar Þór Kristinsson, framkvæmdastjóri fjárfestingafélagsins Reirs, og Petrea Ingileif Guðmundsdóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri sölu-, þjónustu- og markaðssviðs 365, verði kjörin ný í stjórn fjarskiptafélagsins á aðalfundi þess þann 20. mars næstkomandi. Nefndinni bárust framboð frá alls níu manns til setu í aðalstjórn félagsins.

Í skýrslu tilnefningarnefndar Sýnar, sem birt var síðdegis í dag, er lagt til að núverandi stjórnarmennirnir Hjörleifur Pálsson stjórnarformaður, Sigríður Vala Halldórsdóttir og Tanya Zharov verði kjörin að nýju í stjórn félagsins, auk þeirra Hilmars Þórs og Petreu Ingileifar.

Þá mælir nefndin með því að þau Óli Rúnar Jónsson og Þyrí Dröfn Konráðsdóttir verði kjörin til setu í varastjórn Sýnar en Óli Rúnar hefur setið í varastjórn félagsins frá því í mars í fyrra.

Fram kemur í skýrslu tilnefningarnefndar að alls hafi níu manns gefið kost á sér í aðalstjórn Sýnar og þrír í varastjórn. Ekki er hins vegar tekið fram hverjir frambjóðendurnir séu. Þó er nefnt að Anna Guðný Aradóttir, sem setið hefur í stjórn Sýnar frá árinu 2012, hafi ákveðið að gefa ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarstarfa.

Markaðurinn greindi frá því fyrr í mánuðinum að þær Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir, fjárfestir og áður einn stærsti hluthafi VÍS, og Kristín Þorsteinsdóttir, fyrrverandi ritstjóri og útgefandi Fréttablaðsins, væru á meðal þeirra sem sæktust eftir því að komast í stjórn Sýnar. Þær eru hvorugar á lista tilnefningarnefndar.

Hilmar Þór er einn af eigendum Frostaskjóls sem á beint eða óbeint tæplega sjö prósenta hlut í Sýn. Auk þess fer hann með um 0,5 prósenta hlut í fjarskiptafélaginu í gegnum eigið félag, Fasta eignarhaldsfélag.

Petrea Ingileif á að baki þrettán ára starf sem stjórnandi og sérfræðingur hjá fjarskipta- og afþreyingarfyrirtækjum en hún hefur meðal annars starfað sem framkvæmdastjóri hjá Símanum og 365 og sem forstjóri Tals. Hún situr nú í stjórnum Icepharma, Terra og Allianz, auk þess að sinna ráðgjafastörfum.