Tilnefningarnefnd leggur til að Kristín Friðgeirsdóttir taki sæti Örnu Harðardóttur í stjórn Eikar fasteignafélags. Tilkynnt var til Kauphallarinnar í byrjun febrúar að Arna myndi ekki gefa kost á sér til stjórnarsetu á nýjan leik.

Fyrir í stjórn sitja Eyjólfur Árni Rafnsson stjórnarformaður, Guðrún Bergsteinsdóttir varaformaður, Bjarni Kristján Þorvarðsson og Hersir Sigurgeirsson.

Aðrir sem boðið hafa sig fram til stjórnar á aðalfundi Eikar hinn 25. mars eru Már Wolfgang Mixa, lektor við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík og Ragnheiður Harðar Harðardóttir, forstjóri Opinna Kerfa.

„Mikilvægt er að jafnvægi ríki milli endurnýjunar í stjórn og stöðugleika. Af þeim fjórum stjórnarmönnum sem bjóða sig fram aftur hafa tveir setið lengur en tvö ár, tveir hafa setið skemur en tvö ár. Í ljósi umtalsverðrar endurnýjunar sem hefur orðið á síðustu tveimur árum í stjórninni, álítur nefndin varhugavert að leggja til fleiri en einn nýjan stjórnarmann,“ segir í tillögu tilnefningarnefndarinnar. „Að virtu heildarmati á frambjóðendum telur tilnefningarnefnd því að þekking og reynsla Kristínar muni styrkja stjórn til viðbótar við þá fjóra stjórnarmenn sem gefa áfram kost á sér umfram aðra.“

Tilnefningarnefndin segir að Kristín muni styrkja stjórnina enn frekar þegar kemur að góðum stjórnarháttum og sérstaklega áhættustjórnun.

Kennir við London Business School

Kristín er alþjóðlegur stjórnendaráðgjafi með eigin rekstur á sviði stefnumótunar, ákvarðanatöku, áhættustýringar, gagnagreiningar og tekjustýringar. Hún kennir við kennir við London Business School og hefur gert það frá árinu 2002 og gegnir stöðu Adjunct Professor, er varaformaður stjórnar TM og situr í stjórn Controlants, Distica, Lykils og Völku. Hún var formaður stjórnar Haga á árunum 2014 – 2019.

Kristín er með doktorspróf í rekstrarverkfræði frá Stanford, Bandríkjunum, M.S. í fjármálaverkfræði frá sama skóla árið C.S. í véla- og iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands.

Í tilnefningarnefnd Eikar eru Drífa Sigurðardóttir formaður, Ingólfur Bender og Þorkell Erlingsson.