Í tillögum sem fulltrúar bankanna hafa kynnt fyrir Seðlabanka Íslands, sem viðbragð til að bregðast við fyrirsjáanlegum lausafjár- og greiðsluerfiðleikum fyrirtækja vegna efnahagslegra áhrifa af útbreiðslu kórónaveirunnar, er meðal annars lagt til að Seðlabankinn beiti efnahagsreikningi sínum með því að kaupa sértryggð skuldabréf fyrirtækja, svo sem fasteignafélaga, á markaði. Slíkar aðgerðir eru sambærilegar þeim sem seðlabankar beggja vegna Atlantsála réðust í eftir alþjóðlegu fjármálakreppuna til að að lækka langtímavexti á markaði.

Þá kemur einnig fram í tillögum bankanna, sem hafa verið útfærðar á vettvangi Samtaka fjármálafyrirtækja (SFF), að ríkið muni bera hluta af þeirri útlánahættu sem fylgir því ef bankarnir koma til móts við fyrirtæki, einkum í ferðaþjónustu, með aukinni lausafjárfyrirgreiðslu, samkvæmt heimildum Markaðarins. Sömuleiðis er að finna tillögur, sem minna um margt á „Beinu brautina,“ samkomulag stjórnvalda og lánastofnana 2010 um skuldaaðlögun lítilla og meðalstórra fyrirtækja, sem lúta að því hvernig taka eigi á tímabundnum greiðsluvanda með því að endurskipuleggja skuldir lífvænlegra fyrirtækja í erfiðleikum.

Samkvæmt tillögunum, sem eru margþættar, er jafnframt lagt til að bindiskyldan minnki, vextir Seðlabankans lækki enn frekar og að svigrúm fjármálakerfisins til að takast á við tímabundinn lausafjárvanda atvinnulífsins verði aukið með því að draga úr eiginfjárkröfum og sveiflujöfnunaraukinn lækkaður verulega. Sveiflujöfnunaraukinn nemur nú tveimur prósentum eftir að hafa verið hækkaður um 0,25 prósentur 1. febrúar, sem byggðist á ákvörðun Fjármálastöðugleikaráðs ári áður, en nýlega skipuð Fjármálastöðugleikanefnd kemur saman í fyrsta sinn síðar í þessum mánuði þar sem meðal annars verður rætt hvort endurskoða eigi eiginfjárauka á bankana til lækkunar.

Við vitum ekki hversu lengi þetta efnahagsástand varir vegna útbreiðslu kórónaveirunnar og hversu mikið áfallið verður af því að þetta eru fordæmalausar aðstæður

Seðlabankinn fundaði með stóru bönkunum síðastliðinn mánudag, samkvæmt heimildum Markaðarins, en fram kom á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar í gær að hún myndi meðal annars beita sér fyrir virku samráði milli stjórnvalda og Samtaka fjármálafyrirtækja um viðbrögð þeirra við erfiðleikum fyrirtækja í ferðaþjónustu. Þannig hefur Yngvi Örn Kristinsson, hagfræðingur SFF, síðustu daga unnið náið með stýrihópi sjö ráðuneytisstjóra um samfélagsleg og hagræn viðbrögð við kórónaveirunni. Stýrihópurinn var settur á fót undir lok síðasta mánaðar. Útfærðar tillögur ættu að liggja fyrir á allra næstu dögum.

Lilja Alfreðsdóttir situr meðal annars í ráðherranefnd um efnahagsmál og endurskipulagningu fjármálakerfisins.
Fréttablaðið/Anton Brink

Á blaðamannafundi forystumanna ríkisstjórnarinnar kom fram að aðgerðir stjórnvalda munu miða að því að aðstoða fyrirtæki sem lenda í tímabundnum rekstrarörðugleikum, frestir verði veittir á opinberum gjöldum, skoðað verði að fella niður skatta sem eru íþyngjandi fyrir fyrirtæki landsins og setja aukinn kraft í opinberar framkvæmdir svo dæmi séu tekin.

Í samtali við Markaðinn segir Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, aðgerðirnar vera „þýðingarmikið fyrsta skref“.

Til að slíkar efnahagsaðgerðir skili hins vegar sem mestum árangri þurfi atvinnulífið, peningamálayfirvöld og stjórnvöld að ganga í takt. „Þá þurfa aðrir, meðal annars sveitarfélögin, að koma til móts við fyrirtæki í lausafjárerfiðleikum með frestun fasteignagjalda,“ segir Lilja.

„Við vitum ekki hversu lengi þetta efnahagsástand varir vegna útbreiðslu kórónaveirunnar og hversu mikið áfallið verður,“ útskýrir Lilja, „af því að þetta eru fordæmalausar aðstæður. Þess vegna er mikilvægt, einkum í ljósi þess að ferðaþjónustan er okkar stærsta gjaldeyrisskapandi atvinnugrein, að við grípum til umfangsmikilla aðgerða til að milda höggið og tryggja um leið skjóta efnahagslega viðspyrnu.“