Hið opinbera sinnir stórtækum atvinnurekstri og oft á mörkuðum sem einkaaðilar sinna eða gætu hæglega sinnt. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri greiningu Viðskiptaráðs sem ber heitið: Er stórtækur rekstur hins opinbera náttúrulögmál?

Í greiningunni segir meðal annars að viðskiptabönkunum undanskildum hefur stöðugildum hins opinbera í atvinnurekstri fjölgað um alls 2,6 prósent. Að bönkunum meðtöldum hefur þeim fækkað um 3,5 prósent.

Stöðugildum í opinberum atvinnurekstri hefur fjölgað mest þar sem markaðsbrestur ríkir, alls um 6,4 prósent. Á hinn bóginn hefur samkeppnisrekstur hins opinbera dregist saman en að bönkunum undanskildum hefur stöðugildum í samkeppnisrekstri fjölgað um 4,9 prósent. Þá hefur atvinnurekstur á mörkum markaðsbrests og samkeppni staðið nokkurn veginn í stað.

Ef horft er til hins opinbera í heild, einnig stofnana og sveitarfélaga, hefur stöðugildum fjölgað um 14 prósent frá 2016 til 2020 á sama tíma og þeim fækkaði í einkageiranum. Heimsfaraldurinn skýrir einungis hluta af þessari þróun.

Hið opinbera hefur leitt launahækkanir síðustu misseri með 17 prósent hækkun launa frá upphafi faraldursins en þróunin hefur ekki verið í samræmi við framleiðniaukningu og verðbólgumarkmið Seðlabankans.

Laun opinberra starfsmanna hérlendis námu 16 prósent af landsframleiðslu árið 2020 samanborið við 11 prósent meðaltal ESB ríkja meðal OECD. Aðeins í Noregi var hlutfallið lítillega hærra.

Viðskiptaráð leggur fram þrjár tillögur til að sporna gegn þessari þróun:

  1. Hið opinbera skal gera þjónustusamninga við einkaaðila þar sem markaðsbrestur ríkir ef hagfelldara er að rekstur sé í höndum einkaaðila.
  2. Starfsemi hins opinbera sem er á mörkum þess að vera lausn á markaðsbrestum og samkeppnisrekstur, eða hvort tveggja, þarf að endurskoða ítarlega. Gæta þarf þess að hið opinbera útvíkki ekki starfsemi sína yfir í samkeppni við einkaaðila nema skýr rökstuðningur liggi fyrir og mat á áhrifum slíkrar starfsemi á samkeppni.
  3. Hætta skal þátttöku hins opinbera á samkeppnismarkaði með sölu á eignarhluta hins opinbera

Lesa má greininguna í heild sinni hér.