Efnahags- og viðskiptanefnd hefur lagt til við fjármálaráðherra að á bilinu 25 til 35 prósent af hlutafé Íslandsbanka fyrst um sinn, en þetta kemur fram í greinagerð nefndarinnar sem hefur verið birt á vef Alþingis. Greinagerðin er undirrituð af meirihluta nefndarinnar, en nefndarmeðlimir flokkanna sem eru í minnihluta á Alþingi skila allir séráliti.

Í umsögn meirihluta nefndarinnar er það lagt til að hver og einn þátttakandi í útboðinu megi ekki eiga meira en 2,5 til 3 prósent í bankanum. Jafnframt er lagt til að tilboðsgjafar í útboðinu sem bjóða undir ákveðinni fjárhæð, til að mynda einni milljón króna, verði ekki fyrir skerðingu á eignarhlut sínum ef umframeftirspurn verður í hlutafjárútboðinu.

Greinagerðin tekur einnig til umfjöllunar hugsanlega arðgreiðslu til ríkisins áður en útboðið fer fram: „Samkvæmt upplýsingum nefndarinnar gæti Íslandsbanki greitt út 3-4 milljarða króna arð til ríkisins án þess að ganga gegn tilmælum fjármálaeftirlitsnefndar. Líklegt er að arðgreiðslan hafi takmörkuð áhrif á væntanlegt verð á þeim hlutum sem í boði eru og því virðist skynsamlegt að bankinn greiði arð áður en til útboðs kemur,“ segir í greinagerðinni, en fjármálaeftirlitsnefnd Seðlabanka Íslands birti nýlega tilmæli um heimildir banka til arðgreiðslna til hluthafa.

Meirihluti nefndarinnar tekur jafnframt fram að tímasetning á sölu Íslandsbanka gæti vart verið betri. „Skráning hlutabréfa í Íslandsbanka styrkir og dýpkar innlendan hlutabréfamarkað, eykur fjölbreytileika og hefur þar með jákvæð áhrif á verðmyndun. Um leið styður öflugur hlutabréfamarkaður við fjármögnun íslenskra fyrirtækja almennt. Markaðsaðstæður eru í flestu hagstæðar til útboðs hlutabréfa. Sögulega lágir vextir örva að öðru jöfnu eftirspurn eftir hlutabréfum og ýta almennt undir atvinnuvegafjárfestingu,“ segir nefndin.

Í greinagerðinni kemur fram að snjallt gæti verið að skrá Íslandsbanka á erlenda markaði: „Hlutabréf Íslandsbanka í upphafi aðeins á innlendan verðbréfamarkað sem traustsyfirlýsingu. Skynsamlegt kann að vera að stefna að skráningu Íslandsbanka á erlenda markaði í náinni framtíð samhliða frekari sölu á eignarhlutum ríkisins. Nauðsynlegt er að auka áhuga erlendra fjárfesta á hlutabréfum íslenskra fyrirtækja með skráningu í öðrum löndum."

Í minnihlutaáliti Jóns Steindórs Valdimarssonar, sem situr í efnahags- og viðskiptanefnd fyrir hönd Viðreisnar, segir að það sé stefna Viðreisnar að hið opinbera taki aðeins þátt í samkeppnisrekstri ef ríkir almannahagsmunir krefjast þess.

„Sala á eignarhlut í Íslandsbanka samræmist því vel stefnu Viðreisnar,“ segir í álitinu, en þar segir einnig að tímasetning útboðsins, leikreglur þess og umfang séu og verði á ábyrgð fjármála- og efnahagsráðherra og ríkisstjórnarinnar. „Hlutverk efnahags- og viðskiptanefndar er að gera athugasemdir við greinargerð ráðherra um söluna og beina til hans,“ segir í áliti Viðreisnar.

Viðreisn vill að í mesta 25 prósent af hlutafé Íslandsbanka verði seld í fyrsta kasti, sem er minna en meirihluti efnahags- og viðskiptanefnd leggur til. Einnig vill viðreisn að allir tilboðsgjafar undir 10 milljónum fá ekki skertan hlut í útboðinu. Að öðru leyti virðist Viðreisn í meginatriðum sammála meirihluta nefndarinnar.

Samkvæmt minnihlutaáliti Samfylkingarinnar er ekki tekin afstaða til tæknilegra atriða við útfærslu útboðsins, heldur benda á nauðsyn grænna fjárfestinga og velta upp hugmyndum um samfélagsbanka:

„Samhliða örri tækniþróun og nauðsyn grænna fjárfestinga eru augljósar áskoranir til staðar í fjármálaumhverfinu. Vega þarf og meta kosti samfélagsbanka, leitast við að laða að æskilega eigendur fjármálastofnana með þekkingu á bankarekstri og mikilvægt er að breytt kerfi verði til þess að áhætta í fjárfestingabankastarfsemi verði áhyggjuefni eigenda fjárfestingarbanka en ekki ríkisins. Þar liggur mikilvægur lærdómur bankahrunsins.“

Fulltrúi Samfylkingarinnar í nefndinni bendir einnig á að hugmyndin um að selja að minnsta kosti 25 prósent í bankanum sé eingöngu þess efnis vegna þess að Kauphöllin setji slíkt skilyrði. Þá er einnig gagnrýnt að bankinn sé eingöngu skráður á innlendum markaði: „Engin vinna hefur farið fram af hálfu stjórnvalda við að laða að stóra erlenda aðila með þekkingu á bankastarfsemi,“ segir í minnihlutaáliti Samfylkingarinnar.

Í áliti Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, fulltrúa Miðflokksins í efnahags- og viðskiptanefndar, er tekið fram að aldrei hafi staðið til að ríkið ætti bankanna til langframa eftir að hafa eignast þá í kjölfar bankahrunsins árið 2008: Endurskipulagningu fjármálakerfisins, sem hefði átt að fylgja yfirtöku ríkisins á bönkunum, sé ekki lokið:

„Með því var átt við að ríkisvaldið kláraði óhjákvæmilega endurskipulagningu með þeim hætti að fjármálakerfið yrði betur í stakk búið til að gegna mikilvægu hlutverki sínu í samfélaginu með virkri samkeppni, aukinni hagkvæmni og betri kjörum fyrir almenning og fyrirtæki á Íslandi. Í því samhengi er lykilatriði að rekstur sé fjölbreyttur en kerfið um leið eins öruggt og kostur er og búi við sem mestan fyrirsjáanleika. Sá hluti verkefnisins var ekki kláraður. Óþarfi er að rekja hér hvernig farið var með Arion banka en ríkisvaldið sleppti af honum hendi án þess að það væri gert sem liður í að ná þeirri heildarniðustöðu sem stefnt var að.“

Tillögur Miðflokksins um að afhenda hluta Arion banka til almennings án endurgjalds eru rifjaðar upp í samhengi við sölu Íslandsbanka: „Þegar heimilt yrði að selja bréfin myndi þannig myndast virkur markaður með hlutabréf og markaðsverð sem myndi einfalda sölu á restinni. Ekki er loku fyrir það skotið að sambland þessara aðferða, dreifð eignaraðild meðal landsmanna og yfirtaka erlends viðskiptabanka geti virkað saman í tilviki Íslandsbanka.“