Markaðurinn

Leggja til að alþjónustan verði boðin út

Bréfasendingum hefur fækkað verulega á síðustu árum. Fréttablaðið/Arnþór

Kostnaður ríkissjóðs af því að sinna alþjónustu í póstflutningi gæti numið allt að 450 milljónum króna á ári samkvæmt mati Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands. Sérfræðingar stofnunarinnar telja margt mæla með því að ríkið bjóði þjónustuna út. Hvati til hagræðingar sé lítill þegar ríkið borgar reikninginn.

Fram kemur í skýrslu Hagfræðistofnunar, sem gerð var opinber fyrir helgi, að mögulegt tap Íslandspósts af dreifingu og þjónustu A-pósts, sem borinn er út innanlands daginn eftir að hann er lagður í póst, kunni að verða nálægt 125 milljónum króna á ári. Íslandspóstur fer sem kunnugt er með einkarétt á dreifingu bréfa sem eru upp að 50 grömmum að þyngd.

Hinn stóri kostnaðarliðurinn við að sinna grunnþjónustu í póstflutningum er póstdreifing í sveitum. Hagfræðingar stofnunarinnar telja að slík dreifing kosti sennilega ríflega 300 milljónum króna meira á ári en dreifing pósts annars staðar á landsbyggðinni.

Að viðbættum kostnaði vegna flutninga fyrir meðal annars blinda gæti alþjónustubyrðin farið í um 450 milljónir króna á ári, að mati hagfræðinganna.

Tekið er fram í skýrslunni að bréfasendingum fækki nokkuð hratt. Eftir því sem þörfin fyrir póstþjónustu minnki verði sú spurning áleitnari hvort hundruðum milljóna króna úr ríkissjóði á ári sé vel varið í slíka þjónustu. Auk þess sé lítil hvöt til þess að hagræða í póstrekstri þegar allur kostnaður er greiddur úr ríkissjóði. Leggur Hagfræðistofnun því til að alþjónustan verði boðin út í áföngum. Póstfyrirtæki gætu þá hagnast á því að finna leiðir til þess að dreifa pósti á hagkvæmari hátt en nú er gert.

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Innlent

Íslensk verðbréf kaupa Viðskiptahúsið

Innlent

Icelandair hækkar í fyrstu viðskiptum

Innlent

Ásett fer­metra­verð ný­bygginga hækkað í borginni

Auglýsing

Nýjast

Mun líklegri til að skilja við maka en skipta um banka

Hvítbókin: Ríkið selji í bönkunum

SFS segir alvarlegt að Ágúst fari rangt með mál

Hagkerfið tapar milljörðum á umferðartöfum

Seðlabankinn skýri stefnu sína um inngrip

Kaupir skulda­bréf til baka fyrir 21 milljarð króna

Auglýsing