Hlutafé Þórsmerkur, sem er eigandi Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins og tengdra miðla, var aukið um 300 milljónir króna að nafnvirði í maí. Í tilkynningu til fyrirtækjaskrár kemur fram að hlutafé Þórsmerkur hafi verið aukið um helming, úr tæpum 607 milljónum króna að nafnvirði í tæplega 907 milljónir. Samhliða því var hlutafé Árvakurs aukið úr tæplega 55 milljónum króna að nafnvirði í tæplega 65 milljónir.

Ekki kom fram í tilkynningunni hvernig skipting hlutafjáraukningarinnar var á milli hluthafa en samkvæmt skráningu á eignarhaldi Árvakurs á vef Fjölmiðlanefndar er það enn óbreytt frá því í fyrra. Stærstu hluthafarnir, með 20 prósent hvort, eru Ramses, félag Eyþórs Laxdal Arnalds, og Íslenskar sjávarafurðir, sem er í eigu Kaupfélags Skagfirðinga. Þá fer Hlynur A, félag tengt Guðbjörgu Matthíasdóttur, aðaleiganda Ísfélags Vestmannaeyja, með rúmlega 16 prósenta hlut, og Ísfélagið sjálft fer með rúmlega 13 prósenta hlut. Legalis, félag Sigurbjörns Magnússonar, á rúmlega 12 prósenta hlut í Árvakri.

Hlutafé Þórsmerkur hefur tekið þó nokkrum breytingum á undanförnum misserum í takt við slæma afkomu Árvakurs. Þannig var hlutaféð lækkað um milljarð síðasta sumar til að mæta tapi undangenginna ára og fyrr á sama ári var hlutafé Þórsmerkur aukið um 200 milljónir króna til að bæta fjárhagsstöðu félagsins. Árvakur tapaði 415 milljónum króna árið 2018 og 284 milljónum árið á undan.