Lagt var upp með að tölvuleikjafyrirtækið Mainframe Industries, sem meðal annars var stofnað af meðstofnanda CCP og hefur fengið fjármögnun frá Andreessen Horrowitz, yrði stærra en Ísland eitt og sér myndi ráða við. Þess vegna var brugðið á það ráð að stofna fyrirtækið í Finnlandi og vera með skrifstofur þar og á Íslandi. Þetta segir Þorsteinn Högni Gunnarsson, forstjóri og einn stofnenda leikjafyrirtækisins.

Mainframe Industries hefur safnað um tíu milljónum evra, jafnvirði 1,6 milljarða króna, til að standa að uppbyggingunni. Fyrirtækið er rúmlega eins árs.

„Á Íslandi er mikið af hæfu fólki sem starfað hefur hjá CCP og fleiri fyrirtækjum en þetta er tiltölulega lítill hópur enn, ef til vill nokkur hundruð manns,“ segir Þorsteinn Högni. Hann var framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá CCP í sjö ár.

Finnland áhugavert

„Finnland er sérstaklega spennandi hvað þetta varðar, þar er stór og öflugur leikjageiri,“ segir hann og nefnir að um fimm þúsund manns starfi þar við hann. Þekkt tölvuleikjafyrirtæki eins og Supercell, sem meðal annars bjó til Clash og the Titans, og Remedy Games hafa sprottið þar upp.

„Við erum að reyna að búa til sýndarheim sem milljónir manna munu kalla heimili sitt, vonandi til margra ára,“ segir Þorsteinn Högni um leikinn.
Mynd/Aðsend

„Við erum að reyna að búa til sýndarheim sem milljónir manna munu kalla heimili sitt, vonandi til margra ára,“ segir Þorsteinn Högni um leikinn. Um er að ræða fjölnotenda leik sem fjölmargir geta spilað á sama tíma, eins og í tilviki krúnudjásns CCP, Eve Online. Ekki hefur verið upplýst um hvert sögusvið leiksins er.

Hugmyndin að leiknum kviknaði fyrir nokkuð mörgum árum hjá Reyni Harðarsyni, einum af meðstofnendum CCP, en hann hafði hvorki fundið tæknilegu leiðina né rétta teymið sem gæti framkvæmt hana fyrr en nú.

Hugmyndin að leiknum kviknaði fyrir nokkuð mörgum árum hjá Reyni Harðarsyni, einum af meðstofnendum.
Mynd/Aðsend

Þorsteinn Högni, Reynir og Kjartan Emilsson, sem meðal annars var yfirleikjahönnuður hjá CCP, stofnuðu saman sprotafyrirtækið Sólfar Studios árið 2014 í því skyni að framleiða efni fyrir sýndarveruleika. „Við ákváðum að venda kvæði okkar í kross,“ segir hann og hafist var handa við að leggja drög að nýja leiknum undir merkjum Mainframe Industries.

Streymisveitur fyrir leiki

Að sögn Þorsteins Högna var hvatinn að stofnun fyrirtækisins öðrum þræði „að við vorum að sjá gríðarlegar breytingar“ á leikjageiranum með tilkomu streymisveitna fyrir leiki í anda Spotify og Netflix. „Allt byggt á því að leikjum er streymt í tækið sem spilað er á hverju sinni,“ segir hann.

Leikir eins og EVE Online eru hannaðir fyrst og fremst fyrir vel útbúnar PC-tölvur. „Ný tækni gerði það að verkum að hægt var að búa til leik eða sýndarheim sem myndi ná til miklu stærri hóps leikmanna en áður hefur verið hægt,“ segir hann.

Þorsteinn Högni segir að liðlega þremur mánuðum eftir stofnun fyrirtækisins hafi Mainframe In­dustries safnað hlutafé frá fjárfestum „sem eru sterkir á Íslandi og í Finnlandi“.

Söfnuðu fjármagni hratt

Fyrirtækið safnaði tveimur milljónum evra frá íslenska vísissjóðnum Crowberry, sem meðal annars Helga Valfells fer fyrir, og þremur finnskum vísissjóðum. Tveir þeirra eru sérhæfðir í leikjafyrirtækjum. Tilkynnt var opinberlega um fjármögnunina í október í fyrra. Í mars var upplýst að Andreesen Horrowitz, einn þekktasti vísisfjárfestir í heimi, hefði leitt 7,6 milljóna evra fjármögnun.

„Við einsettum okkur að safna frekar hratt fjármagni inn í félagið,“ segir Þorsteinn Högni og nefnir að leitað hafi verið eftir fjárfestum með tengslanet og þekkingu. Hafist var handa við að kynna fyrirtækið fyrir fjárfestum á finnsku tækniráðstefnunni Slush í nóvember. Tveimur vikum síðar lá leiðin í Kísildalinn að hitta fjárfesta.

Hann segir að það hafi komið í ljós að hugmyndir þeirra og Andreesen Horrowitz um framtíðina í leikjageiranum fóru vel saman. Aukinheldur hafi Andreesen Horrowitz um 160 manns á sínum snærum sem veiti sprotafyrirtækjum aðstoð á fjölda sviða.

„Það var líka gaman að fá Riot Games í hluthafahópinn því þeir framleiða vinsælasta tölvuleik í heimi, League of Legends,“ segir Þorsteinn Högni.

Ræddu við 30 fjárfesta

Rætt var við 30 fjárfesta á þeim tíma. Hann segir að það sé alltaf erfitt að fá fundi með fjárfestum. Þeir fái enda ótal fjárfestingartækifæri á sitt borð á hverju ári. Gott tengslanet skipti því sköpum við að fá fundi með fjárfestum. „Í okkar tilviki þekkti einn af meðstofnendum okkar frá Finnlandi einn af meðeigendum Andreesen Horrowitz,“ segir hann.

Að sögn Þorteins Högna hefur ekki verið gefið upp hvenær leikurinn komi á markað. Það sé enn nokkuð í það en vonast sé til að prófanir hefjist „áður en of langt um líður“.

Munu safna meira fé

Mainframe Industries hefur safnað 9,6 milljónum evra í hlutafé og fengið 600 þúsund evra lán frá finnska sprotasjóðnum. „Við munum safna meira fé þegar fram líða stundir. Við erum í ansi góðum málum núna,“ segir hann og nefnir að með þessu fé verði hægt að ná lykilvörðum í framgangi leiksins. Auknu fé verði safnað þegar þróun leiksins verður lengra komin.

Þorsteinn Högni segir að stuðningur finnska ríkisins við sprotafyrirtæki sé veglegur en annars eðlis en á Íslandi. Á Íslandi sé fyrst og fremst um að ræða styrki frá Tækniþróunarsjóði eða endurgreiðslur á rannsóknar- og þróunarkostnaði. Það sé afar gagnlegt. Í Finnlandi séu veitt hagstæð lán sem nema oft um helmingi eða meira af því hlutafé sem fyrirtækið hafi safnað.

„Þetta eru tíu ára kúlulán og í augnablikinu á eins prósents vöxtum,“ segir hann. Mainframe hafi tekið eitt slíkt lán fyrir 600 þúsund evrur og reiknað sé með að taka fleiri slík lán á næstu tveimur árum.

Kjartan Emilsson, sem meðal annars var yfirleikjahönnuður hjá CCP, er á meðal stofnenda Mainframe Industries.
Mynd/Aðsend

Finnar og Íslendingar stofnuðu Mainframe

Það starfa 27 manns hjá Mainframe Industries og stefnt er að því að fjöldinn verði um 40 í lok árs. Þorsteinn Högni vekur athygli á að meðal annars sé verið að leita að starfskröftum á Íslandi.

Stofnendur Mainframe eru 13. Fimm Finnar og sjö Íslendingar. „Það er óvanalegt að svo stór hópur komi að stofnun sprotafyrirtækis en okkur þótti það nauðsynlegt því verkefnið er tiltölulega flókið og því þótti okkur mikilvægt að stofnendahópurinn væri öflugur,“ segir Þorsteinn Högni. Hver og einn í hópnum hafi um 20 ára reynslu, hver á sínu sviði. „Það hjálpaði okkur að safna fjármagni.“

Þorsteinn nefnir að Íslendingarnir sem fóru af stað með Mainframe Industries hafi notið góðs af tengslaneti sínu í Finnlandi frá fyrri árum.