Hlutafé skyrsölufyrirtækisins Icelandic Provisions, sem er meðal annars í eigu Mjólkursamsölunnar og íslenskra einkafjárfesta, var aukið um fjórar milljónir dala, jafnvirði tæplega 480 milljóna króna, í síðasta mánuði, samkvæmt tilkynningu sem fyrirtækið hefur sent bandaríska verðbréfaeftirlitinu.

Um er að ræða aðra hlutafjáraukningu fyrirtækisins, sem hóf sölu á skyri í Bandaríkjunum snemma árs 2016, á innan við ári en fjárfestar lögðu því til um fimm milljónir dala, sem jafngildir um 600 milljónum króna, í aukið hlutafé í maí á síðasta ári. 

Áður hafði skyrfyrirtækið lokið við allt að tuttugu milljóna dala hlutafjársöfnun.

Stofnendur Icelandic Provisions eru bandaríski fjárfestingarsjóðurinn Polaris Founders Capital og Mjólkursamsalan en í hluthafahópnum eru auk þess meðal annars nokkrir nokkrir íslenskir fjárfestar og fjárfestingasjóðurinn DGNL Ventures. Fjárfestarnir Hallbjörn Karlsson og Davíð Freyr Albertsson og Ari Edwald, forstjóri MS, eru á meðal stjórnarmanna í skyrfyrirtækinu.

Skyrið sem fyrirtækið framleiðir í uppsveitum New York fæst í meira en 6.300 verslunum vestanhafs en salan tvöfaldaðist á síðasta ári. Eins og áður sagði hóf fyrirtækið sölu í ársbyrjun 2016 og var skyrið í fyrst flutt frá afurðastöð MS á Selfossi.

Mark Alexander, sem gegndi margvíslegum stjórnunarstörfum fyrir Campbell Soup Company yfir 29 ára skeið, var í síðasta mánuði ráðinn forstjóri Icelandic Provisions í stað Steve Platts sem gegnt hafði starfinu frá haustinu 2016.