Leggja þarf Tækniþróunarsjóði aukið fjármagn til að hann geti veitt fjármagni í fleiri verkefni í niðursveiflunni. Umsóknum fjölgar þegar atvinnuleysi eykst.

Þetta sagði Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs hjá Samtökum iðnaðarins, í sjónvarpsþættinum Markaðnum sem sýndur var klukkan níu í gærkvöldi á Hringbraut.

Ríkissjóður lagði Tækniþróunarsjóði til 700 milljón króna aukalega vegna mikils samdráttar í efnahagslífinu sem COVID-19 olli, að hennar sögn.

Hagkerfið dróst saman um tæp sjö prósent á árinu 2020 og heildaratvinnuleysi var tólf prósent í mars.

Sigríður sagði að það hafi verið metár í umsóknum til Tækniþróunarsjóðs á árinu 2020 sem að hluta megi rekja til atvinnuleysis sem skapaðist vegna COVID-19 heimsfaraldursins.

Tækniþróunarsjóður styrkir fyrirtæki sem eru að sinna þróunarverkefnum. Hún sagði að styrkirnir væru frá einni milljón í tugi milljóna.