Snakk Kompaníið ehf. sem framleiðir vöruna Lava Cheese hefur náð samningum við hollenska ostaframleiðandann Hazeleger Kaas um fjárfestingu í nýrri framleiðsluaðstöðu fyrir Lava Cheese. Heildarfjárfesting Hazeleger er upp á rúma eina milljón evra.

Jóhann Már Helgason, fjármálastjóri Lava Cheese, segir að samningurinn hafi mikla þýðingu fyrir fyrirtækið.

„Samningurinn felur í sér að Hazeleger Kaas fjárfesti í öllum nauðsynlegum framleiðslutækjum fyrir Lava Cheese í Evrópu og framleiði vöruna með möguleika á útvíkkun samstarfsins víðar um heiminn. Þannig mun framleiðslugeta Lava Cheese að minnsta kosti tífaldast og gera okkur kleift að uppfylla þörf á núverandi mörkuðum og einnig sækja á nýja markaði víðsvegar um Evrópu."

Hann bætir við að samhliða þessum samning hafi fyrirtækið einnig náð samning við bandaríska fyrirtækið Perfect Day til að lækka kolefnisspor vörunnar.

„Í dag kolefnisjöfnum við alla okkar framleiðslu á kolefnisjöfnunarvettvangi Sameinuðu Þjóðana, sem er tímabundin lausn á meðan við finnum leiðir til að minnka sjálfa losunina frá framleiðslunni. Sú lausn sem við sjáum fyrir okkur er að mjólkin sem er notuð til að búa til ostinn komi ekki undan af beljum, heldur verði sjálf mjólkurpróteinin framleidd af bakteríum í efnaskiptaferli og þaðan verður hægt að búa til „alvöru mjólk“ með aðeins broti af kolefnisfótspori hefðbundinnar mjólkurframleiðslu. Með þessum þróunarsamningi mun Perfect Day sjá okkur fyrir þeim próteinum sem við þurfum til að þróa áfram þau hráefni sem við þurfum í Lava Cheese vörurnar okkar,“ segir Jóhann.

Snakk Kompaníið ehf hefur verið starfandi frá árinu 2017 og framleiðir fyrirtækið vöruna Lava Cheese sem er ketóvænt ostasnakk sem er aðeins búið til úr hreinum osti án allra aukaefna. Lava Cheese varð fljótt landsþekkt vörumerki á Íslandi. Eftir að hafa náð góðum árangri í Svíþjóð þar sem vöruna má finna í yfir 450 verslunum, þá er stefnan sett á frekari landvinninga á norðurlöndunum og Evrópu.

Það sem hefur hindrað hraðari vöxt fyrirtækisins er framleiðslugetan. Hver einasta askja sem fyrirtækið framleiðir er seld um leið. Í dag getur fyrirtækið ekki annað frekari eftirspurn og er því stefnan sett á tíföldun framleiðslugetunar á þessu ári.