Kaffihúsinu Laundromat við Austurstræti 9 verður lokað næstkomandi sunnudag, 11. febrúar. Ástæðan er að ekki náðist samkomulag um áframhaldandi samstarf við leyfishafa, sem er Þvottakaffi ehf., og eiganda þess. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Friðriki Weisshappel Jónssyni, eiganda kaffihússins. 

„Við erum í viðræðum við nýja samstarfsaðila og líkur á að Laundromat Cafe opni fljótlega aftur á öðrum stað.... En nú er ekki meira um þetta að segja,“ segir Friðrik í tilkynningunni.

Laundromat er bæði kaffihús og efnalaug. Reksturinn hefur hins vegar gengið brösuglega því fyrirtækið, sem þá hét X1050 ehf, var úrskurðað gjaldþrota árið 2014. Þá voru Hallur Dan Johansen og Valgarð Þórarinn Sörensen eigendur – með Friðrik Weisshappel í forsvari. Gjaldþrotaskiptum lauk árið 2016 og fékkst ekkert upp í kröfur, sem náðu rúmum 94 milljónum króna, að því er segir í Lögbirtingablaðinu.

Þá hugðist Friðrik opna annað útibú Laundromat Café við Laugarásveg í Reykjavík árið 2016 – við hlið veitingastaðarins Laugaás. Friðrik hafði hins vegar ekki erindi sem erfiði því íbúar í húsnæðinu og eigendur Laugaáss lögðust gegn opnun staðarins.