Launavísitalan hækkaði um 3,3 prósent í apríl frá fyrri mánuði og gætir þar meðal annars áhrifa launahækkana sem samið var um í kjarasamningum, að sögn Hagstofunnar. Sé til horft til síðustu tólf mánaða hefur launavísitalan hækkað um 6,8 prósent.

Um er að ræða kjarasamninga bæði á almennum vinnumarkaði og hjá opinberum starfsmönnum en stór hluti launafólks á íslenskum vinnumarkaði fékk kjarasamningshækkun í aprílmánuði. Í samningum er almennt kveðið á um hækkun mánaðarlauna fyrir fullt starf um 18 þúsund krónur og hækkun kauptaxta um 24 þúsund krónur.

Í frétt á vef Hagstofunnar er bent á að í mars og apríl hafi hluti launafólks farið ýmist í skert starfshlutfall, verið fjarverandi frá vinnu eða misst vinnu vegna heimsfaraldurs kórónaveirunnar.

„Slíkar breytingar á vinnutíma launafólks og samsetningu vinnuaflsins hafa almennt ekki áhrif á launavísitölu þar sem henni er ætlað að endurspegla verðbreytingu vinnustundar fyrir fastan vinnutíma. Hins vegar hafa breytingar á reglulegum aukagreiðslum eins og álags- og bónusgreiðslum, sem eru gerðar upp á hverju útborgunartímabili, áhrif á launavísitölu,“ segir í frétt Hagstofunnar.