Launamunur á milli ófaglærðs og háskólamenntaðs starfsfólks á leikskólum Reykjavíkurborgar mun minnka verulega og verða í sumum tilfellum nær enginn og jafnvel snúast við ef kröfur Eflingar á hendur borginni ganga eftir. Þetta leiða útreikningar sem Samtök atvinnulífsins hafa unnið að beiðni Markaðarins í ljós.

Kröfurnar fela þannig meðal annars í sér að laun leiðbeinenda á leikskólum yrðu hærri en laun aðstoðarleikskólakennara árið 2022, ef gert er ráð fyrir að þeir síðarnefndu semji um launahækkanir á nótum lífskjarasamningsins. Til samanburðar voru laun aðstoðarleikskólakennara um 23 prósentum hærri en laun leiðbeinenda á árinu 2018.

Auk þess leiða útreikningarnir í ljós að launamunur leiðbeinenda annars vegar og leikskólakennara með fimm ára háskólanám að baki hins vegar mun fara úr 47 prósentum, eins og hann var árið 2018, í 14 prósent árið 2022 ef gengið verður að kröfum Eflingar og leikskólakennarar semja um hækkanir í anda lífskjarasamningsins.

Daði Már Kristófersson, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, segir í samtali við Markaðinn að erfitt sé að breyta hlutfallslegum launum ólíkra hópa. Það líti út fyrir að það muni kveikja áhuga annarra hópa á sambærilegum launahækkunum ef orðið verði við kröfum Eflingar.

„Þetta er sérstaklega viðkvæmt í almennum störfum þar sem er blanda ólíkra hópa, til dæmis faglærðra og ófaglærðra. Það er auðveldara að taka fyrir sérhæfða hópa sem eru eylönd í kerfinu þar sem störfin eru sérhæfð og fáir geta gengið í þau,“ nefnir hann.

Meirihluti kjósenda í atkvæðagreiðslu Eflingar um verkfallsaðgerðir gegn borginni samþykkti verkfallsboðun um liðna helgi en fyrirhugaðar aðgerðir, sem eiga að hefjast næsta þriðjudag, ná meðal annars til félagsmanna stéttarfélagsins á leikskólum Reykjavíkurborgar, á hjúkrunarheimilum, í heimahjúkrun og við sorp- og gatna­umhirðu. Lítið hefur áunnist í viðræðum Eflingar og borgarinnar og ber enn mikið á milli.

Langt umfram lífskjarasamning

Samkvæmt útreikningum Samtaka atvinnulífsins fela launakröfur Eflingar á hendur Reykjavíkurborg í sér umtalsvert meiri hækkanir en samið var um á almennum vinnumarkaði – með lífskjarasamningnum svonefnda – í apríl í fyrra en stéttarfélagið stóð sem kunnugt er að þeim samningi.

Til marks um það yrðu laun verkamanna í sorphirðu á vegum Reykjavíkurborgar að jafnaði samtals 490 þúsund krónur á mánuði árið 2022 fyrir fulla dagvinnu, ef tekið er mið af kröfugerð Eflingar, borið saman við mánaðarlaun verkamanna í sömu störfum á almennum vinnumarkaði upp á 373 þúsund krónur samkvæmt lífskjarasamningnum. Næmi launa­munurinn nærri 120 þúsund krónum.

Enn fremur yrðu dagvinnulaun starfsfólks Reykjavíkurborgar við umönnun að jafnaði um 506 þúsund krónur á mánuði árið 2022, ef kröfur Eflingar ná fram að ganga, en til samanburðar gerir lífskjarasamningurinn ráð fyrir að laun starfsfólks sem sinnir sambærilegum störfum á almennum vinnumarkaði verði á sama tíma um 406 þúsund krónur á mánuði.

220 þúsund króna hækkun

Útreikningar Samtaka atvinnulífsins leiða jafnframt í ljós að laun leiðbeinenda og annars ófaglærðs starfsfólks á leikskólum Reykjavíkurborgar myndu hækka um 220 þúsund krónur á mánaðargrundvelli samkvæmt kröfum Eflingar og hefur þá verið tekið tillit til taxtahækkana, hækkana á fastri yfirvinnu, breytinga á tengireglu starfsmats og orlofs- og desemberuppbótar. Sé litið fram hjá hækkunum á fastri yfirvinnu yrði launahækkunin allt að 175 þúsund krónur.

Til samanburðar gerir lífskjarasamningurinn ráð fyrir 91 þúsund króna mánaðarhækkun.

Af útreikningum samtakanna má jafnframt ráða að leikskólaliðar verði með hærri föst laun en trésmiðir og iðjuþjálfarar, svo dæmi séu tekin, á árinu 2022 ef kröfur Eflingar verða að veruleika. Þá verði hlutfallslegur munur á föstum launum leikskólaliða, sem eiga að baki tveggja til þriggja ára nám á framhaldsskólastigi, og hjúkrunarfræðinga aðeins 1,9 prósent en munurinn er nú um 39 prósent.

Harpa Ólafsdóttir, formaður samninganefndar borgarinnar, sagði í samtali við Viðskiptablaðið í síðustu viku að kröfur Eflingar væru talsvert umfram það sem samið var um í lífskjarasamningnum sem stéttarfélagið hefði sjálft staðið að.

„Hvernig eigum við að ná sátt um það að skattborgarar – meðal annars þeir sem í dag eru á svipuðum launum og þeir sem verið er að semja fyrir – standi frammi fyrir skatta- eða gjaldskrárhækkunum vegna þess að við þurfum að borga starfsmönnum borgarinnar hærri laun en samið var um á almenna markaðinum?“ nefndi Harpa.

Fram kom á blaðamannafundi sem Efling boðaði til á mánudag að kostnaður Reykjavíkurborgar vegna kröfugerðar félagsins myndi nema tæplega 290 milljónum króna á þessu ári, 1,44 milljörðum króna á því næsta og 1,55 milljörðum króna árið 2022 og árið 2023.

Var kröfugerðin sett í samhengi við kostnað borgarinnar af endurnýjun braggans í Nauthólsvík, þar sem fundurinn fór fram, og tekið fram að í lok samningstímans yrði árlegur kostnaðarauki vegna krafna félagsins á við tæplega fjóra bragga.