Tölur um launaþróun á hinum ýmsu mörkuðum og hópum eru birtar tveimur mánuðum seinna en launavísitalan fyrir alla. Þar eru nýjustu tölur frá október 2021. Í nýlegri Hagsjá kom m.a. fram að laun á almenna markaðnum hefðu hækkað mun minna en á þeim opinbera milli októbermánaða 2020 og 2021. Launin hækkuðu um 6,5 prósent á almenna markaðnum á þessum tíma og um 10,4 prósent á þeim opinbera.

Opinberi markaðurinn hefur því verið leiðandi í launabreytingum á síðustu mánuðum, allt frá haustinu 2020 þegar kjarasamningar á opinbera markaðnum voru almennt komnir til framkvæmda. Allt frá upphafi ársins hefur því verið töluvert bil á þróun launa milli þessara markaða, sé miðað við upphaf ársins 2015.

Frá ársbyrjun 2015 fram á mitt ár 2020 var áþekk þróun launa á almennum markaði og hjá hinu opinbera. Síðan hefa laun opinberra starfsmanna hækkað mun meira en á almennum vinnumarkaði.

Laun eftir starfsstéttum

Hagstofan gefur einnig út launavísitölu ýmissa starfsstétta á almenna markaðnum og eru nýjustu tölur þar einnig frá október 2021. Sé miðað við stöðuna í upphafi ársins 2015 má sjá að laun verkafólks hafa hækkað mest á þessu tímabili, um rúm 70 prósent. Skammt á eftir koma laun þjónustu-, sölu- og afgreiðslufólks.

Verkafólk og afgreiðslufólk í verslunum hefur hækkað mest í prósentum en stjórnendur minnst.

Á neðri endanum er prósentuhækkun launa stjórnenda langminnst, en þau hafa hækkað um 42 prósent. Þar fyrir ofan eru laun sérfræðinga sem hafa hækkað um 51 prósent.

Hagfræðingar Landsbankans telja þessar tölur vera skýra vísbendingu um að sú áhersla sem lögð hefur verið á mesta hækkun lægstu launa hafi náð nokkuð vel fram að ganga á þessu tímabili.

Séu laun starfsstétta skoðuð yfir tíma má sjá hvernig laun verkafólks og þjónustu-, sölu og afgreiðslufólks tóku stökk upp á við fyrir um áð bil ári ári og skildu sig frá öðrum hópum. Á þessum tæpu sjö árum er 30-40 prósentustiga munur á launahækkunum þessara starfsstétta.

Laun eftir atvinnugreinum

Hagstofan birtir einnig launavísitölu atvinnugreina og er þar undir allt starfsfólk í viðkomandi greinum, óháð þeim störfum sem það sinnir.

Hér sést hvernig laun ólíkra stétta hafa þróast á almennum vinnumarkaði.

Munurinn á milli atvinnugreina hvað launaþróun varðar er mun minni en á milli starfsstétta. Á tímabilinu frá janúar 2015 fram til október 2021 hafa laun í verslun og viðgerðum hækkað mest, eða um rúm 62 prósent. Þar koma veitustarfsemi og flutningar og geymsla skammt á eftir. Fjármála- og vátryggingarstarfsemin hefur nokkra sérstöðu með um 10 prósentustiga minni hækkun en hinar greinarnar á þessu tímabili.

Sé litið á þróun launa í atvinnugreinum yfir tíma má sjá að dregið hefur saman með fjármála- og vátryggingarstarfsemiog öðrum atvinnugreinum á núverandi samningstímabili. Þetta er í samræmi við markmiðið um sérstaka hækkun lægstu launa. Laun eru einmitt tiltölulega há í fjármála- og vátryggingarstarfsemi.

Hér sést hvernig laun hafa þróast í mismunandi atvinnugreinum.

Umræða um launamál á eftir að aukast

Kjarasamningar á almenna markaðnum renna nær allir út í lok október á þessu ári og flestir samningar á þeim opinbera í lok mars 2023. Kröfugerð og undirbúningur fyrir gerð nýrra kjarasamninga hefst því brátt á almenna markaðnum og er jafnvel hafinn.

Síðasta samningstímabil hefur verið mjög sérstakt í aðstæðum heimsfaraldurs. Engu að síður er staðan sú að laun hafa hækkað með venjubundnum hætti allt tímabilið og markmið um sérstaka hækkun lægstu launa virðast hafa gengið eftir. Næsti viðburður í kjaramálum verða viðræður um hagvaxtarauka sem hefjast innan nokkurra vikna.