Laun opinberra starfsmanna hækkuðu um 16,1 prósent frá ársbyrjun 2020 og fram til loka mars á þessu ári. Laun ríkisstarfsmanna hækkuðu um 13,7 prósent á tímabilinu og hækkun launa starfsmanna sveitarfélaga hækkuðu um 18,7 prósent. Á meðan hækkuðu laun á almenna markaðnum um 8,5 prósent á sama tímabili, að því er kemur fram í umfjöllun hagdeildar Landsbankans.

„Laun á opinbera markaðnum hafa hækkað mun meira en á þeim almenna milli janúarmánaða 2020 og 2021. Á síðustu misserum myndaðist bil á milli launaþróunar á þessum tveimur mörkuðum þar sem kjarasamningar á opinbera markaðnum voru gerðir mun seinna en á þeim almenna. Þetta bil hefur nú verið brúað að fullu og rúmlega það,“ segir í umfjöllun Landsbankans.

Á almenna markaðnum hafa laun verkafólks hækkað mest, eða um 13,3 prósent. Laun stjórnenda hækkuðu minnst, eða um 4 prósent. Um þetta segir hagdeildin: „Meginmarkmið síðustu kjarasamninga var að lægstu laun hækkuðu meira en þau hærri. Þessar niðurstöður, þar sem laun verkafólks og þjónustu-, sölu- og afgreiðslufólks hækka áberandi mest, benda til þess að þau markmið hafi náðst að einhverju leyti.“

Hraðar launahækkanir síðustu 15 mánuða hafa gert það að verkum að mikil kaupmáttaraukning mælist á Íslandi. Kaupmáttaraukning mælist þannig um 6 prósent síðastliða 12 mánuði.

Landsbankinn bendir á að þrátt fyrir miklar launahækkanir á markaði sé atvinnuleysi meira en landsmenn hafa þurft að venjast. „Þróun launa um þessar mundir er í nokkru ósamræmi við margar aðrar stærðir í hagkerfinu. [...] Fyrr á tímum lækkaði kaupmáttur launa yfirleitt mikið í kreppum vegna gengisfalls og mikillar verðbólgu. Launahækkanir nú í byrjun árs hafa verið miklar og kaupmáttarstig er sögulega hátt. Ef horft er á launaþróun í fyrri kreppum má sjá að sú jákvæða launaþróun sem við sjáum nú er ekki beint í takt við slakan vinnumarkað,“ segir hagdeildin.