Laun hækkuðu að jafnaði um 0,3 prósent í ágúst 2021 frá fyrri mánuði, samkvæmt launavísitölu. Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitalan hækkað um 7,9 prósent. Frá ársbyrjun 2021 og fram í ágúst hækkaði launavísitala um 5,7 prósent. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hagstofunni.

Mest hækkaði vísitalan í janúar á þessu ári þegar laun hækkuðu um 3,7 prósent en þá hækkun má að mestu rekja til ákvæða kjarasamninga sem náðu til meirihluta launafólks á íslenskum vinnumarkaði. Á árinu 2021 hefur gætt áhrifa vegna styttingar vinnuvikunnar til hækkunar launavísitölu en einungis hjá opinberum starfsmönnum.

Frá janúar 2019 til júní 2021 hafa laun samkvæmt launavísitölu hækkað um 16,8 prósent á almennum vinnumarkaði, 19,2 prósent hjá ríkisstarfsmönnum og 25,2 prósent hjá starfsfólki sveitarfélaga. Á tímabilinu hafa hækkanir launþegahópa komið inn á ólíkum tíma vegna mismunandi tímasetninga í kjarasamningum og er mikilvægt að taka mið af því til að fá sambærilegan samanburð á milli hópa.

Heimild: Hagstofan.

Árið 2019 komu lífskjarasamningar til framkvæmda á almennum vinnumarkaði sem kveða meðal annars á um krónutöluhækkanir og styttingu vinnuvikunnar hjá hluta launafólks. Sambærilegir kjarasamningar voru gerðir árið 2020 hjá meirihluta opinbers starfsfólks og fólu þeir í sér tvær kjarasamningshækkanir á árinu 2020, þ.e. vegna ársins 2019 og 2020 þar sem samningar höfðu verið lausir frá fyrri helmingi árs 2019.

Hlutfallsleg launahækkun starfsmanna sveitarfélaga hefur verið meiri en hjá bæði ríkisstarfsmönnum og starfsfólki á almennum vinnumarkaði frá því að kjarasamningar komu til framkvæmda árið 2020. Í því samhengi er vert að hafa í huga að kjarasamningar sem kveða á um krónutöluhækkanir fela í sér að lægri laun hækka hlutfallslega meira en hærri laun. Samanburður á launastigi launaþegahópa sýnir að laun starfsfólks sveitarfélaga eru að jafnaði lægst sem skýrir hærri hlutfallslega hækkun launa í þeim hópi.

Á tímabilinu hafa laun opinberra starfsmanna hækkað meira að jafnaði en starfsmanna á almennum vinnumarkaði vegna styttingu vinnuvikunnar. Launaþróun samkvæmt launavísitölu byggir á verði vinnustundar og getur stytting vinnuvikunnar umfram niðurfellingu á neysluhléum verið ígildi launabreytinga. Þegar greiddum stundum fækkar en laun haldast óbreytt hækkar launavísitala.