Hlutfall launakostnaðar af tekjum Icelandair Group er talsvert hærra en sama hlutfall helstu keppinauta flugfélagsins í Evrópu samkvæmt samantekt Fréttablaðsins. Umræddur kostnaður nam um 31,4 prósentum af tekjum íslenska flugfélagsins í fyrra en til samanburðar var hlutfallið 21,6 prósent hjá norræna flugfélaginu SAS og 20,9 prósent hjá breska flugfélaginu British Airways á síðasta rekstrarári félaganna.

„Stjórnendur félagsins þurfa að leita allra leiða til þess að lækka kostnað þess í íslenskum krónum,“ segir Snorri Jakobsson, sérfræðingur hjá Capacent.

Launakostnaður Icelandair Group, sem er stærsti kostnaðarliður félagsins, nam ríflega 445 milljónum dala, sem jafngildir um 47 milljörðum króna, á síðasta ári og hækkaði um 26 prósent á milli ára. Hlutfall kostnaðarins af tekjum var 31,4 prósent en hlutfallið hefur hækkað hratt á undanförnum tveimur árum. Það var 24,6 prósent árið 2015 og 27,4 prósent árið 2016.

Hlutabréf í félaginu hafa sem kunnugt er fallið um fjórðung í verði eftir að stjórnendur þess lækkuðu fyrr í mánuðinum afkomuspána fyrir þetta ár um þriðjung.

Snorri bendir á að launakostnaður félagsins hafi hækkað langt umfram tekjur á hverju ári undanfarin fimm ár. Samt sem áður hafi tekjur vaxið mikið. Ekkert fyrirtæki ráði við slíkar kostnaðarhækkanir til lengdar. Það sé einfaldlega ekki sjálfbært.

„Steininn tók úr á árunum 2016 og 2017 þegar launakostnaður hækkaði um tugi prósenta umfram tekjuaukningu,“ segir hann. Á sama tíma hafi launakostnaður sem hlutfall af tekjum farið úr 24,6 prósentum í 31,4 prósent.

Að hótelrekstri samstæðunnar – Icelandair Hotels – undanskildum var launakostnaður 30,2 prósent af tekjum Icelandair Group á síðasta ári. Hlutfallið var hvergi hærra á meðal stærstu flugfélaga í Evrópu og keppinauta íslenska félagsins. Næsthæst var það hjá franska flugfélaginu Air France KLM eða 29,6 prósent en lægst var það hjá ungverska lággjaldaflugfélaginu Wizz Air eða aðeins 7,6 prósent.

Fyrrnefnda félagið hefur gripið til ýmissa aðhaldsaðgerða til þess að ná launakostnaðinum niður, við litlar vinsældir franskra verkalýðshreyfinga, en verkfallsaðgerðir af hálfu starfsmanna félagsins hafa kostað það yfir 400 milljónir evra, jafnvirði um 50 milljarða króna, það sem af er árinu.

WOW air hefur ekki birt ársreikning fyrir síðasta ár en árið 2016 var launakostnaður ríflega 14,8 prósent af tekjum félagsins.

Þó ber að taka fram að samanburðurinn á milli flugfélaga er ýmsum vandkvæðum bundinn, enda er ekki fyllilega sambærilegt á milli félaga hvaða greiðslur teljast til launakostnaðar. Jens Þórðarson, framkvæmdastjóri Icelandair, sagði til dæmis í viðtali við ViðskiptaMoggann fyrr í mánuðinum að á meðan um 1.500 starfsmenn störfuðu á launaskrá Icelandair við hina ýmsu þjónustu á Keflavíkurflugvelli væri sama þjónusta aðkeypt hjá mörgum flugfélögum, til dæmis WOW air.

Fíllinn í herberginu

Snorri segir Icelandair Group hafa notið góðs af ytri aðstæðum á árunum 2011 til 2015. Raungengi hafi verið sögulega lágt og launakostnaður því lægri og samkeppni á flugmarkaði minni. Samkeppnisstaðan hafi hins vegar versnað hratt þegar gengi krónunnar hafi tekið að styrkjast.

„Stjórnendur félagsins þurfa að leita allra leiða til þess að lækka kostnað þess í íslenskum krónum, hvort sem þeir gera það með því að útvista hluta starfseminnar eða með öðrum sparnaðaraðgerðum,“ segir Snorri.

„Samkeppnin er hörð og flugfélög keppa í verðum. Of mikill kostnaður leiðir til þess að félagið verður undir í verðsamkeppninni.“

Ekki sé hægt að treysta á að samkeppnin minnki. Stjórnendurnir verði að ná tökum á launakostnaðinum.

Greinendur hafa lýst yfir áhyggjum af hækkandi launakostnaði íslenska flugrisans og sagt kostnaðinn vera „fílinn í herberginu“. Þannig var 31 prósents hækkun kostnaðarins á fyrsta fjórðungi ársins langt umfram væntingar sérfræðinga. Sagði hagfræðideild Landsbankans þróunina áhyggjuefni.

„Launakostnaður í flugi er reyndar alþjóðlegt áhyggjuefni en Icelandair má síst við miklum hækkunum,“ sagði í viðbrögðum sérfræðinga Landsbankans við uppgjöri félagsins. Bentu þeir jafnframt á að útlit væri fyrir að launakostnaðurinn hækkaði um ríflega 100 milljónir dala á milli ára.

Í afkomutilkynningu Icelandair Group var tekið fram að helmingur hækkunarinnar á launakostnaði skýrðist af styrkingu krónunnar gagnvart Bandaríkjadal, en nær allur launakostnaður samstæðunnar er í krónum.

Þá hafi stöðugildum samstæðunnar fjölgað á tímabilinu og laun samkvæmt samningum hækkað. Fjölgun stöðugilda megi rekja til annars vegar fjölgunar áhafna vegna vaxtar félagsins og hins vegar til þess að ákveðið hafi verið að „vinna ákveðnu vinnu með eigin starfsmönnum í stað þess að kaupa þjónustuna af þriðja aðila“.

Gengur ekki til lengdar

Eins og kom fram í vorhefti Peningamála Seðlabanka Íslands hefur launakostnaður íslenskra fyrirtækja hækkað mun meira en meðaltalið í öðrum ríkjum OECD á síðustu árum.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að heilt yfir hafi kjarasamningar á almennum markaði leitt til þess að samkeppnishæfni íslenskra útflutningsfyrirtækja hafi farið hratt þverrandi á undanförnum árum. „Í raun erum við komin á þann stað að það fer að stefna í óefni. Samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja er ekki lengur til staðar,“ nefnir hann.

Halldór Benjamín bendir á að launakostnaður íslenskra fyrirtækja, mældur erlendri mynt, hafi hækkað um meira en helming á umliðnum árum enda hafi krónan styrkst samhliða miklum launahækkunum.

„Það sjá allir menn í hendi sér að það getur ekki gengið til lengdar og mun að sjálfsögðu koma niður á samkeppnishæfni þessara fyrirtækja sem eru í erlendri samkeppni og er nú þegar byrjað að gera það,“ segir Halldór Benjamín.