Bandaríska flugfélagið Delta og stéttarfélagið hjá flugmönnum félagsins sömdu nýlega um að hækka laun flugmanna um 30 prósent yfir næstu fjögur árin. Samningurinn gæti orðið lýsandi fordæmi fyrir launahækkanir flugmanna hjá öðrum flugfélögum.

Flugmenn hjá nokkrum af stærstu bandarísku flugfélögunum hafa mótmælt undanfarna mánuði og krafist uppfærslu á ráðningarsamningum þeirra. Flugmenn hjá Delta hótuðu meðal annars að fara í verkfall í október ef samningar næðust ekki.

Flugsamgöngur vestanhafs hafa verið fljótar að jafna sig eftir kórónuveirufaldurinn og hafa stéttarfélög kvartað mikið undan háu vinnuálagi sem flugmenn glíma við. Skortur á reyndum flugmönnum hefur aftur á móti hækkað verðin á flugmiðum og setur það nýja flugmenn í betri samningastöðu.

Samningurinn felur í sér 18 prósenta hækkun daginn sem hann er undirritaður. Á næsta ári munu svo laun flugmanna hækka um 5 prósent og fylgja svo tvær 4 prósenta launahækkanir á hverju ári eftir það.

„Við erum ánægð með að hafa samið um þau grundvallaratriði í þessum nýja samningi sem viðurkennir framlag flugmanna til velgengni Delta,“ segir í tölvupósti frá talsmanni Delta.