Lánskjör ríkissjóðs eru sögulega hagstæð og hafa raunvextir á lánum ríkissjóðs aldrei verið betri. Þetta segir Gylfi Magnússon, prófessor í fjármálum við Háskóla Íslands í samtali við Fréttablaðið.„Lánskjör ríkissjóðs eru óneitanlega hagsstæð, þá sérstaklega lánskjör innanlands. Raunvextir á lánum ríkissjóðs hafa aldrei veri betri allavega ekki síðan vextir voru gefnir frjálsir. Þeir hafa farið lækkandi um um það bil eitt prósentustig á hverjum fjórum árum lengi vel. Þannig það er gríðarleg breyting frá því sem blasti við áður þannig fjármagnskostnaður ríkisins er nánast enginn og hægt er að taka lán á núllprósent raunvöxtum.“ segir Gylfi.

Katrín Ólafsdóttir, dósent við Háskólann í Reykjavík, var gestur í sjónvarpsþættinum Markaðurinn á sjónvarpsstöðinni Hringbraut síðastliðinn miðvikudag þar sem hún sagði að varhugavert væri að skera niður halla ríkissjóðs of mikið og sagði hún enga þörf á því.

Gylfi Magnússon, prófessor við Háskóla Íslands.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Gylfi segir að þó beri að hafa í huga að auðvitað þurfi að greiða ríkisútgjöld með einhverjum hætti fyrr eða síðar.

„Þó svo það sé hægt að taka lán án raunvaxta þá breytir það því ekki að það þarf að taka pólitískar ákvarðanir og þannig réttlæta bæði útgjöld og tekjurnar. En það ætti að vera mikill léttir að þurfa ekki að hafa áhyggjur af kostnaðinum við það að greiða niður skuldir. Það er að allavega ekki dýrt að taka frekari lán en að sjálfsögðu tekur ríkissjóður bara lán þegar þörf krefur þannig menn taka ekki lán bara því það er hagstætt heldur þegar þarf að fjármagna eitthvað,“ segir Gylfi og bætir við að eins og staðan er í dag þurfi að fjármagna heilmikið.

„Það sem máli skiptir eru raunvextirnir og þeir eru ekkert að hækka og ekki útlit fyrir að þeir fari hækkandi."

„Núna þarf að fjármagna heilmikið það er hallarekstur á ríkissjóði bæði í ár og í fyrra sem sér ekki fyrir endann á þó staðan fari vonandi batnandi.Hann segir jafnframt að hann telji ekki að lánskjörin fari versnandi á komandi misserum. „Það sem blekkir er að nafnvextir eru að hækka eitthvað, stýrivextir Seðlabankans líka og einnig sambærilegir vextir í nágrannalöndunum. En það sem máli skiptir eru raunvextirnir og þeir eru ekkert að hækka og ekki útlit fyrir að þeir fari hækkandi. Það er ekki eitthvað sem breytir þessari mynd í kortunum og raunvextir ráðast af heildarframboði af sparnaði og heildareftirspurn í hagkerfinu. Síðan skiptir samspil milli landa líka máli því fjármagn fer yfir landamærin. Í flestum löndum er offramboð af sparnaði og ekki líklegt að það fari minnkandi.“

Gylfi bætir við að það skipti miklu máli hvað það kosti að velta skuldunum á undan sér. „Það skiptir heilmiklu máli hvað kostar að velta skuldunum á undan sér. Þegar það er ekkert er í sjálfu sér hægt að fresta því svo lengi sem það er talið hagstætt að greiða niður skuldir og jafnvel hægt að fresta því að eilífu ef það er pólitískur vilji til þess.“

Hann segir auk þess að meta þurfi áhrifin af því að örva hagkerfið. „Ég held að það sé ekki sérstaklega hættulegt að auka skuldir ríkisins meira en þær eru nú. Það þarf bara að meta áhrifin af því að örva hagkerfið eins og gert hefur verið með hallarekstri og áhrifin af því að trappa það mjög hratt niður.“