Sjóður á vegum Lansdowne Partners hefur á síðustu dögum selt ríflega eins prósents hlut í Arion banka fyrir rúma 1,5 milljarða króna. Í kjölfar viðskiptanna fer breski vogunarsjóðurinn með um 2,9 prósenta hlut í bankanum að virði um 4,3 milljarða króna, samkvæmt nýjum lista yfir stærstu hluthafa hans.

Lansdowne Partners hefur minnkað markvisst við hlut sinn í Arion banka, rétt eins og í öðrum skráðum félögum hér á landi, á síðustu vikum og mánuðum en hann hefur alls selt um þriggja prósenta hlut í bankanum fyrir hátt í þrjá milljarða króna það sem af er ári.

Samkvæmt athugun Markaðarins hefur vogunarsjóðurinn selt sig niður í hérlendum félögum fyrir hátt í átta milljarða króna frá áramótum. Er þar um að ræða Arion banka, Festi, VÍS, TM og Sýn.

Lífeyrissjóður verslunarmanna hefur á móti bætt við sig ríflega hálfs prósents hlut í Arion banka og heldur nú á 4,6 prósenta hlut í bankanum. Til samanburðar átti lífeyrissjóðurinn 3,7 prósenta hlut í bankanum í lok síðasta árs.

Hlutabréf í Arion banka hafa lækkað um 6,3 prósent í verði það sem af er ári en gengislækkun bréfanna í þessari viku er um 7,3 prósent. Gengi bréfanna stendur nú í 80,75 krónum á hlut.