Sjóður á vegum Lansdowne Partners, breska vogunarsjóðsins sem hóf innreið sína á íslenskan hlutabréfamarkað haustið 2017, hefur frá því í október í fyrra selt sig niður í fimm skráðum félögum fyrir samtals um sjö milljarða króna. Þar af hefur hann selt fyrir ríflega sex milljarða króna á þessu ári. Þetta leiðir athugun Markaðarins í ljós.

Vogunarsjóðurinn hefur þannig minnkað verulega eignarhlut sinn í þeim sex skráðu félögum sem hann fjárfesti í hér á landi og er hann sem dæmi aðeins í hópi tíu stærstu hluthafa í tveimur félögum. Til samanburðar var sjóðurinn á meðal átta stærstu hluthafa í fimm félögum í október í fyrra.

Má almennt ætla að ávöxtun af fjárfestingum sjóðsins, sem voru flestar gerðar síðla árs 2017, hafi verið lítil sem engin og í sumum tilfellum verið neikvæð.

Fjárfestingar Lansdowne í íslenskum hlutabréfum, sem sjóðsstjórinn David Craigen hefur haft yfirumsjón með, nema nú samanlagt um 8,2 milljörðum króna og munar þar mest um liðlega 4,2 prósenta hlut í Arion banka að virði um 6,3 milljarðar króna miðað við núverandi gengi hlutabréfa í bankanum.

Sjóðurinn hefur selt hátt í eins prósents hlut í Arion banka fyrir tæplega 1,4 milljarða króna það sem af er árinu en hann kom fyrst inn í hluthafahóp bankans í hlutafjárútboði hans í júní árið 2018.

Selt hvað mest í Festi

Lansdowne hefur selt hvað stærstan hlut í Festi, móðurfélagi N1, Krónunnar og Elko, á undanförnum vikum en frá því um miðjan síðasta mánuð hefur sjóðurinn selt hátt í fjögurra prósenta hlut í smásölu- og eldsneytisfélaginu fyrir um 1,8 til 1,9 milljarða króna, samkvæmt útreikningum Markaðarins. Fer hann nú með tveggja prósenta hlut í félaginu.

Jafnframt hefur eignarhlutur vogunarsjóðsins í VÍS minnkað verulega á síðustu vikum – en hann var 7,15 prósent í byrjun ársins – og er sjóðurinn ekki lengur í hópi tuttugu stærstu hluthafa tryggingafélagsins. Má leiða líkur að því að Lansdowne hafi selt bréf í félaginu fyrir allt að 1,6 milljarða króna það sem af er árinu.

Lansdowne hefur enn fremur minnkað hlut sinn í öðru tryggingafélagi, TM, en frá því í desember í fyrra hefur sjóðurinn selt tæplega fimm prósenta eignarhlut í félaginu fyrir allt að 1,4 milljarða króna. Eftir ríflega 670 milljóna króna sölu síðasta föstudag fer vogunarsjóðurinn með rúman tveggja prósenta hlut í tryggingafélaginu.

Þá hefur Lansdowne selt um 10,5 prósenta hlut í Sýn, sem var fyrsta fjárfesting sjóðsins hér á landi, á síðustu fjórum mánuðum fyrir hátt í einn milljarð króna. Hélt hann í lok síðasta mánaðar á 3,7 prósenta hlut í fjarskipta- og fjölmiðlafélaginu. Vogunarsjóðurinn var um nokkurra mánaða skeið stærsti hluthafi Sýnar með um 14,2 prósenta hlut áður en hann hóf að selja sig niður í félaginu í október í fyrra.

Lítil sem engin ávöxtun

Því til viðbótar seldi vogunarsjóðurinn hlutabréf sín í Símanum á fyrri hluta síðasta árs en hann fór með 2,5 prósenta hlut í fjarskiptarisanum í lok árs 2018. Má ætla að söluandvirði bréfanna hafi numið allt að 900 milljónum króna. Lansdowne var í hópi nokkurra erlendra fjárfesta sem minnkuðu talsvert við sig í Símanum á vormánuðum síðasta árs á sama tíma og Stoðir hófu að fjárfesta í félaginu.

Almennt má segja að ávöxtun af fjárfestingum Lansdowne, að kaupum hans í Arion banka undanskildum, hafi verið lítil sem engin. Á það sérstaklega við um fjárfestingu sjóðsins í Sýn. Þannig byggði hann upp stöðu í félaginu síðla árs 2017 þegar gengið var yfir sextíu krónum á hlut en seldi svo stærstan hluta bréfa sinna síðasta haust á gengi sem var undir þrjátíu krónum á hlut. Auk þess má gera ráð fyrir að gengis­áhrif krónunnar hafi almennt verið til lækkunar á virði íslenskra eigna sjóðsins.

Lansdowne Partners er einn af elstu og stærstu vogunarsjóðunum í London en hann hefur um fimmtán milljarða dala, um 1.900 milljarða króna, í stýringu.