Breski vogunarsjóðurinn Lansdowne Partners, sem fjárfest hefur í íslenskum fyrirtækjum sem skráð eru í Kauphöll, má muna fífil sinn fegurri.

Ávöxtun stærsta sjóðs fyrirtækisins, Developed Markets hedge fund, var neikvæð um tæp 15 prósent árið 2016 og neikvæð um 7,4 prósent í fyrra. Jafnvel þótt hlutabréfamarkaðir hafi verið hagfelldir í ár gengu fjárfestingarnar illa og í lok maí hafði sjóðurinn tapað 4,4 prósent, segir í frétt Financial Times.

Sumir telja að vandinn felist í því hve stór sjóðurinn er. „Það er afar erfitt að hagnast við stýringu á 20 milljörðum dollara,“ segir nafnlaus heimildarmaður í fréttinni.

Lansdowne Partners er einn af elstu og stærstu vogunarsjóðum í heimi.

Stærð er þekkt vandamál

Þetta er þekkt vandamál: Stærri sjóður geta ekki fjárfest í minni eignum og það getur tekið þá mun lengri tíma að selja stöður sínar.

Að því sögðu verður ekki fram hjá því litið, segir í fréttinni, að stærri sjóðir en Lansdowne Partners vegnar mun betur en þeim. Ávöxtun Millienum Management, sem stýrir 39 milljörðum dollara, hefur verið jákvæð árum saman.

Vogunarsjóður Lansdowne Partners hefur tapað 3 prósentum á þriggja ára tímabili sem lauk í maí. Á sama tíma hækkaði S&P 500 um 31 prósent eða um 9,5 prósent á ári. Fram kemur í bréfi til fjárfesta að skortstöður sjóðsins hafi ekki náð betri ávöxtun en markaðurinn frá árinu 2008.

Fyrirtækið er alræmt fyrir að segja sem minnst um fjárfestingar sínar og í bréfum til fjárfesta er hvorki upplýst um stærstu fjárfestingarnar í hlutabréfum né skortstöður.

Fyrirtækið er alræmt fyrir að segja sem minnst um fjárfestingar sínar og í bréfum til fjárfesta er hvorki upplýst um stærstu fjárfestingarnar í hlutabréfum né skortstöður.

Vanmátu Brexit

Á meðal mistaka fyrirtækisins má þó nefna að það vanmat áhrifin af útgöngu Bretlands úr Evrópusambandsins á hlutabréfaverð þar í landi. Í fyrra var tapað meðal annars á fjárfestingum í Lloyds Banking Group og Lufthansa. Stjórnendur sjóðsins sögðu í bréfi til fjárfesta að það gladdi þá að árið 2018 væri á enda.

Á sama tíma og fjárfestingar Lansdowne valda vonbrigðum hefur öðrum sjóðum vegnað ágætlega.

Ávöxtun Gladstone var um 5,8 prósent í maí og 11,4 prósent það sem af er ári. Jafnvel þótt að ávöxtun Pelham hafi verið neikvæð um 6 prósent í síðastliðnum mánuði er hún jákvæð um fjögur prósent það sem af er ári.

Lansdowne vinnur að því að minnka Development Market fund með því að taka ekki inn nýja fjárfesta þegar aðrir taka fjármuni sína úr stýringu hjá þeim.

Fyrirtækið leitar líka leiða til að nýta gögn og annað með betri hætti til að taka betri ákvarðanir. „Það væri sturlað að sitja með hendur í skauti og láta sem allt sé í himnalagi,“ segir heimildarmaður Financial Times sem þekkir vel til starfsemi Lansdowne Partners.