Búið er að samþykkja kauptilboð í allt hlutafé leigufélagsins Ölmu, sem áður hét Almenna leigufélagið, fyrir um 11 milljarða króna. Kaupandi Ölmu, samkvæmt heimildum Markaðarins, er eignarhaldsfélagið Langisjór sem er í eigu systkinanna Guðnýjar Eddu, Eggerts Árna, Halldórs Páls og Gunnars Þórs Gíslabarna en fjölskyldan á meðal annars heildverslunina Mata.

Alma er næststærsta leigufélag landsins með tæplega 1.100 íbúðir í rekstri, einkum á höfuðborgarsvæðinu, og námu heildareignir þess um 46,6 milljörðum um mitt síðasta ár.

Gert er ráð fyrir því að kaupin gangi formlega í gegn í lok næsta mánaðar og í kjölfarið verður allt söluandvirðið greitt út til sjóðfélaga Almenna leigufélagsins eignarhaldssjóðs (ALE), sem er fagfjárfestasjóður í rekstri GAMMA, dótturfélags Kviku, og eigandi Ölmu. Voru kaupin, sem eru fjármögnuð af Arion banka, tilkynnt til Samkeppniseftirlitsins síðastliðinn föstudag, samkvæmt heimildum Markaðarins.

Í hópi helstu hluthafa Ölmu, sem sjóðfélagar í gegnum ALE-sjóðinn, eru meðal annars sjóðastýringarfyrirtækið Stefnir, félög tengd Guðbjörgu Matthíasdóttur, aðaleiganda Ísfélagsins í Vestmannaeyjum, tryggingafélögin TM, Sjóvá og VÍS og einnig Langisjór.

Á meðal dótturfélaga í eigu Langasjós, sem átti eignir upp á tæplega 17 milljarða í árslok 2019, eru Brimgarðar en félagið er langsamlega stærsti hluthafinn í Eik með rúmlega 15,5 prósenta hlut auk þess að vera á meðal tuttugu stærstu hluthafa í fasteignafélögunum Regin og Reitum. Þá voru Brimgarðar einnig í hópi stórra hluthafa í Heimavöllum, sem var um tíma skráð í Kauphöllina, en það var yfirtekið af norska leigufélaginu Fredensborg í fyrra fyrir um 17 milljarða og heitir nú Heimstaden.

Kaupverð Langasjós á leigufélaginu er á genginu 0,91 miðað við núverandi eigið fé Ölmu en samkvæmt síðasta birta árshlutareikningi um mitt síðasta ár nam það um 12,4 milljörðum. Handbært fé félagsins, sem hefur aukist talsvert samhliða sölu á eignum á undanförnum mánuðum, nemur í dag yfir 3 milljörðum króna. Kaupverðið á Ölmu, að sögn þeirra sem þekkja vel til, er sambærilegt verðmötum sem félagið lét KPMG og Kviku banka gera fyrir sig vegna sölunnar.

Gunnar Þór Gíslason, einn hluthafa Langasjós.

Leigufélagið var sett í formlegt söluferli í október, sem hefur verið í umsjón fyrirtækjaráðgjafar Kviku, en um tíma leit út fyrir að ekkert yrði af sölu og að Alma yrði þess í stað skráð á First North markaðinn í Kauphöllina. Flestir stærstu hluthafar Ölmu eru sagðir áfram um að selja félagið á því verði sem núverandi kauptilboð gerir ráð fyrir en sumir, þá einkum Stefnir, hafa hins vegar fremur viljað fara þá leið að skrá leigufélagið á markað. Tvö álitleg tilboð bárust í félagið í söluferlinu en auk Langasjós áttu sér stað viðræður við sjóðastýringarfélag sem var með hóp innlendra fjárfesta, meðal annars lífeyrissjóði, á bak við sig.

Áform Ölmu, sem varð til við sameiningu nokkurra fasteignasjóða í rekstri GAMMA árið 2016, á sínum tíma stóðu til þess að fara með félagið á markað en horfið var frá því haustið 2019. Þá hafði reksturinn verið undir væntingum í nokkurn tíma og aðstæður á mörkuðum ekki taldar fýsilegar. Sett var á fót fimm manna fjárfesta­ráð, skipa fulltrúum hluthafa, og eins var stokkað upp í stjórn leigufélagsins.

Á undanförnum misserum hefur verið ráðist í ýmsar hagræðingaraðgerðir, eins og með lækkun í stjórnunarkostnaði, sölu óhagkvæmra eigna og breytinga á skammtímaleigurekstri, til að bæta afkomu félagsins. Þá hefur fjármögnunarkostnaður – um 40 prósent af skuldum félagsins bera breytilega vexti – lækkað verulega samhliða vaxtalækkunum Seðlabankans.

Rekstrartekjur Ölmu voru 1.335 milljónir á fyrstu sex mánuðum síðasta árs og drógust saman um 146 milljónir. Rekstrarhagnaður félagsins (EBITDA) nam um 748 milljónum króna á fyrri árshelmingi og minnkaði um 45 milljónir milli ára. Vaxtaberandi skuldir Ölmu námu þá um 29 milljörðum en ekki var þá talið líklegt að félagið gæti sótt sér hagkvæmari fjármögnun á markaði að teknu tilliti til uppgreiðslumöguleika á lánum.