Hvernig er morgunrútínan þín?

Flestir morgnar byrja í Sundlaug Seltjarnarness. Það er frábær leið að hefja daginn með hreyfingu og andlegri og líkamlegri hreinsun. Þaðan liggur leiðin í vinnuna þar sem boðið er upp á staup af lýsi með morgunkaffinu. Af því að þetta kostaboð er frítt þá þigg ég gjarnan tvö staup en eins og alþjóð veit er lýsi allra meina bót.

Hver eru þín helstu áhugamál?

Helstu áhugamálin eru samvera með barnabarninu. Hann er svo ótrúlega skemmtilegur snáði. Á sumrin er það svo sveitalíf og laxveiði í bland. Það er hvergi í heiminum betra að vera en á góðum sumardegi úti í íslenskri náttúru. Ég er þess líka aðnjótandi að fylgjast með hestamennsku dóttur og tengdasonar og njóta þess að sjá fegurð og hæfileika sem íslenski hesturinn hefur upp á að bjóða.

Hver er bókin sem ert að lesa eða last síðast?

Ég er að lesa ævisögu Katrínar miklu eftir Jón Þ. Þór. Alveg mögnuð lesning og hún hefur verið stórmerkileg manneskja. Sennilega voru mestu landvinningar Rússa á hennar tímum.

Hvar sérðu þig eftir tíu ár?

Ég ætla að vera komin í ró og næði og kannski bara orðin sveitakona. Stend og baka alla daga og tek á móti gestum og gangandi, segi sögur og hlæ allan daginn.

Hvers konar stjórnunarhætti hefurðu tileinkað þér og hvers vegna?

Ég held að minn stjórnunarstíll felist fyrst og fremst í því að fá fólk til samstarfs á réttum forsendum og treysta samstarfsmönnum mínum fyrir verkefnunum. Línurnar eru samt skýrar en ég er ekki að horfa yfir öxlina á fólki. Ég er mjög dugleg að deila verkefnum og þá sérstaklega mínum verkefnum.

Ég er svo lánsöm að hafa haft sama samstarfsfólk í Lýsi síðastliðin 20 ár. Sama stjórnarformann og sömu framkvæmdastjórn. Fyrir 20 árum vorum við ung og áræðin eins og sést á uppbyggingu fyrirtækisins á þessum árum sem liðin eru. Í dag höfum við því sterka stöðu á alþjóðamarkaði með bestu framleiðslutæki sem völ er á. Við höfum á þessum tíma verið framsækin á erlendum mörkuðum með góðum árangri en 95 prósent af veltu fyrirtækisins eru af útfluttum afurðum. Fimm prósent veltunnar eru á innanlandsmarkaði sem þó er okkur afar mikilvægur.

Hver hefur verið helsta áskorun Lýsis síðustu misseri?

Áskorun fyrir útflutningsfyrirtæki eins og Lýsi er alltaf þróun gengismála. Það sem er verst er óstöðugleiki í gengismálum og almennt ófyrirsjáanlegar breytur eins og miklar kostnaðarhækkanir. Við verðum að muna að við erum í samkeppni með okkar vörur á erlendum mörkuðum sem búa við stöðugleika ólíkt okkur. Það er skylda stjórnvalda að búa atvinnufyrirtækjum hagfellt og stöðugt umhverfi til að geta keppt á erlendum mörkuðum. Svo helst afkoma heimila í hendur við afkomu fyrirtækja þar sem hvorugt getur án hins verið.

Hver er helsta áskorunin fram undan í rekstrarumhverfinu?

Það sem blasir við núna eru átök á vinnumarkaði. Það getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir fyrirtæki eins og Lýsi ef ekki næst ásættanleg lending í þeim málum fyrr en seinna til að eyða óvissu. Það getur skaðað ímynd okkar verulega og þá sérstaklega í ferðaþjónustu ef til verkfalla kemur. Þessi uppstilling verkalýðshreyfingarinnar virðist vera til þess fallin að valda sem mestum skaða. Ég tel að samningaleiðin sé alltaf vænlegri til árangurs.

Sérðu fyrir þér breytingar eða ný tækifæri í sölu og markaðssetningu á lýsisvörum?

Við erum um þessar mundir að setja nýja vörulínu á markaðinn í netverslun okkar lysi-life.is. Hún gefur fólki tækifæri á að taka próf og fá í kjölfarið leiðbeiningar um hvaða vara muni helst hjálpa því. Þannig erum við að nálgast neytendur um allan heim beint í gegnum netverslun okkar hvar sem er. Enn er þó vefsíðan einungis á ensku, en mun í framhaldinu einnig verða aðgengileg á íslensku.

Við leggjum mikið upp úr vöruþróun hér í Lýsi hf. og má segja að unnið sé að vöru- og vinnsluþróun í rannsóknar- og þróunardeild fyrirtækisins af miklum metnaði. Við lítum svo á að við séum leiðandi framleiðandi á sviði lýsisvinnslu í heiminum og þurfum því að vera fremst á meðal jafningja í gæðum á vörum fyrirtækisins.

Stór hluti af erlendri markaðssetningu okkar gengur út á hreinleikaímynd Íslands. Það er því mikilvægt fyrir allar íslenskar afurðir að yfirvöld standi sig í loftslagsmálum og verði öðrum þjóðum til fyrirmyndar í umhverfis- og endurvinnslumálum.