Samkomulag um verkefnið var undirritað í gær, en það er til tveggja ára til að byrja með. Í því koma fram þrjú markmið. Hið fyrsta er að leggja mat á möguleika þess að hrinda í framkvæmd þróunarverkefni, þar sem fyrstu skref orkuskipta í flugi yrðu stigin. Sem dæmi um slíkt mætti nefna verkefni um nýtingu á sjálfbæru eldsneyti, grænu vetni eða rafmagni sem orkubera í flugi á Íslandi. Annað markmiðið er að skapa vettvang hagaðila og stuðla að samvinnu varðandi orkuskipti í flugi og í þriðja lagi er stefnt að því að fræða almenning og hagaðila um mikilvægi orkuskipta í flugi og hvaða skref þarf að taka.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir mjög ánægjulegt að orkufyrirtæki þjóðarinnar og stærsta flugfélagið hafi ákveðið að leggjast saman á árarnar til að vinna að orkuskiptum í flugi. „Orkuskipti í samgöngum eru óhjákvæmileg og þau eru þegar á fullri ferð að því er fólksbílana varðar. Við þurfum líka að finna lausnir fyrir þungaflutninga, skip og flugvélar og það er ekki eftir neinu að bíða.“

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir að flugfélagið bindi góðar vonir við að samstarfið muni skila raunhæfum, sameiginlegum tækifærum. „Óskastaðan er sú að Ísland verði í fararbroddi í orkuskiptum í flugi. Fyrst um sinn er raunhæft að horfa til orkuskipta í innanlandsflugi en við erum í einstakri stöðu hér á landi vegna stuttra flugleiða innanlands og aðgengis að grænni orku. Auk þess getur lega landsins milli Evrópu og Norður Ameríku skapað tækifæri þegar kemur að orkuskiptum í millilandaflugi.“