Norðurál hafði augljósa möguleika á að kaupa rafmagn af öðrum en Landsvirkjun þegar komið var að því að endurnýja raforkusamning fyrirtækisins árið 2016. Landsvirkjun þurfti að auka raforkuframleiðslu sína vegna endurnýjaðs samnings Norðuráls og álframleiðandanum var það fullljóst.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá þremur starfsmönnum Landsvirkjunar sem komu að samningaviðræðum við Norðurál árið 2016. Starfsmennirnir sem um ræðir eru Ríkarður S. Ríkarðsson, framkvæmdastjóri hjá Landsvirkjun, Edvard G. Guðnason, sérfræðingur hjá Landsvirkjun og Þórólfur Nielsen, forstöðumaður hjá Landsvirkjun.

Sólveig Bergmann, sem stýrir samskiptasviði Norðuráls, sagði í Fréttablaðinu á fimmtudag að rangt væri að Landsvirkjun hafi boðið ódýrara rafmagn en önnur orkufyrirtæki þegar kom að því að framlengja raforkusamning félagsins árið 2016, en því hafði Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, haldið fram í útvarpsviðtali nokkrum dögum áður. „Í þeim samningi var engin breyting á magni raforku sem Norðurál kaupir af Landsvirkjun. Norðurál tók þátt í þeim samningaviðræðum af heilindum og var aldrei í viðræðum við aðra orkusala um þau kaup. Það var því engin samkeppni um verð,“ sagði Sólveig.

Fleiri en einn kostur til orkukaupa

Í yfirlýsingu þremenninganna segir að hluti samningaviðræðnanna hafi meðal annars snúist um að Norðurál gæti hætt að kaupa rafmagn af Landsvirkjun að hluta eða öllu leyti, með ákveðnum fyrirvörum, ef fyrirtækið kysi frekar að færa viðskipti sín annað: „Þetta var til umræðu af þeirri augljósu ástæðu að fleiri en einn möguleiki var og er til raforkukaupa á íslenskum raforkumarkaði. Báðum aðilum var þá einnig ljóst að til að Landsvirkjun gæti uppfyllt umrædda skuldbindingu til raforkuafhendingar þyrfti fyrirtækið á næstu misserum að auka vinnslu í raforkukerfi sínu.“

Þremenningarnir benda einnig á að Norðurál hafi frá upphafi keypt raforku af öðrum en Landsvirkjun og meirihluti orkukaupa fyrirtækisins í dag sé af öðrum framleiðendum en Landsvirkjun: „Meirihluti orkukaupa Norðuráls í dag er beint frá ON og HS Orku. Um áramótin 2018-2019 hóf Landsvirkjun að selja Norðuráli raforku úr eigin vinnslukerfi, sem Landsvirkjun hafði áður keypt af Orku náttúrunnar og selt áfram til Norðuráls. Í nóvember 2019 hóf Landsvirkjun sömuleiðis að selja Norðuráli raforku úr eigin vinnslukerfi sem Landsvirkjun hafði áður keypt af HS Orku og selt áfram til Norðuráls,“ segir í yfirlýsingunni. Þar kemur einnig fram að Norðuráli hafi verið vel kunnugt um þetta fyrirkomulag og hefði getað samið við ON eða HS Orku um kaup á lausri orku þeirra við framlengingu samningsins.

„Norðurál virðist ekki hafa haft áhuga á því en sótt mikið í viðbótarkaup af Landsvirkjun síðan þrátt fyrir augljósa möguleika Norðuráls á að fara aðrar leiðir,“ segja þremenningarnir.