Tillaga stjórnar Landsvirkjunar um ríflega 6,3 milljarða króna arðgreiðslu til íslenska ríkisins hefur veirð samþykkt af eiganda. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsvirkjun.

Um er að ræða nokkra lækkun frá síðasta ári, en Landsvirkjun greiddi 10 milljarða til ríkisins á síðasta ári vegna afkomu ársins 2019, sem var metár í sögu Landsvirkjunar.

Lægri arðgreiðsla vegna ársins er í takti við minni hagnað. Hagnaður Landsvirkjunar dróst saman um tæpan þriðjung milli áranna 2019 og 2020 vegna lækkandi raforkuverðs og framleiðslusamdráttar lykilviðskiptavina, sem rekja má að mestu til heimsfaraldursins.

Á aðalfundinum skipaði fjármála- og efnahagsráðherra í stjórn Landsvirkjunar samkvæmt lögum um fyrirtækið. Ekki voru gerðar breytingar á skipan stjórnar frá fyrra starfsári.

Aðalmenn í stjórn Landsvirkjunar eru: Jónas Þór Guðmundsson, Álfheiður Ingadóttir, Jón Björn Hákonarson, Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir og Gunnar Tryggvason.