Ein helstu hags­muna­sam­tök byssu­eig­enda í Banda­ríkjunum, NRA, mun yfir­gefa New York og halda til Texas en þau hafa nú óskað eftir gjald­þrota­skiptum. Mark­miðið er að byggja sam­tökin upp á ný þar sem þau verða ó­hagnaðar­drifin og ber á­ætlun þeirra nafnið „Project Freedom.“

Sam­tökin greindu þó frá því í yfir­lýsingu að þau væru ekki í efna­hags­legum vand­ræðum og að fjár­hagur þeirra væri sterkari en áður fyrr en breytingin myndi hag­ræða rekstur sam­takanna.

Harðlega gagnrýnd

Ýmis­legt hefur gengið á innan sam­takanna síðast­liðin ár en mikil ó­sátt hefur verið milli stjórn­enda og hafa sam­tökin verið sökuð um fjár­mála­mis­ferli. Þá hefur á­kall á­kveðinna hópa, um að herða þurfi lög­gjöf þegar kemur að byssum, verið mjög á­berandi.

Þá höfðaði ríkis­sak­sóknari New York, Letitia James, mál á hendur sam­takanna í sumar þar sem hún sakaði stjórn­endur um að brjóta lög um ó­hagnaðar­drifin sam­tök og að nota fjár­magn sam­takanna til eigin nota.

Í dag gaf hún lítið fyrir yfir­lýsingar sam­takanna. „Fjár­hagsástand NRA er nú loks það sama og sið­ferðis­á­stand þeirra: Gjald­þrota,“ sagði James.