Landsréttur hafnaði í dag kröfu Sýnar á hendur Símanum til greiðslu skaðabóta vegna brota Símans á samkeppnislögum sem stóðu um langt árabil, sem og gagnkröfu Símans á hendur Sýnar. Þetta kemur fram í tilkynningu Sýnar til Kauphallarinnar.

Sýn mun í framhaldinu meta hvort málinu verði áfrýjað til Hæstaréttar. Krafa Sýnar nam um 900 milljónum króna, auk vaxta og gagnkrafa Símans um 2,5 milljarða króna auk vaxta.

Samkeppniseftirlitið komst að þeirri niðurstöðu árið 2012 að Síminn hefði misnotað gróflega markaðsráðandi stöðu sína. Brot Símans fólust meðal annars í því að hafa beitt samkeppnisaðila sína ólögmætum verðþrýstingi um langt árabil, segir í tilkynningunni.

Sýn höfðaði skaðabótamálið í nóvember 2013. Í kjölfarið gaf Síminn út gagnstefnu á hendur Sýn til greiðslu skaðabóta á þeim grunni að Sýn hefði sýnt af sér sömu háttsemi.

Landsréttur hafnaði báðum kröfum og staðfesti þar með dóm Héraðsdóms Reykjavíkur.

Í tilkynningu Símans segir að málið megi rekja til verðlagningar á svokölluðum lúkningargjöldum í farsímaneti en um er að ræða gjald sem farsímafyrirtæki innheimta hvert af öðru þegar viðskiptavinir þeirra hringja í viðskiptavini í öðru farsímakerfi. „Þessi gjöld hafa verið ákveðin af Póst- og fjarskiptastofnun til fjölda ára og voru hámark þeirra ákveðin af stofnuninni þann tíma sem skaðabótakröfurnar taka til.“