Landspítalinn hefur nú skrifað undir samning við PayAnalytics um notkun á hugbúnaði þess við jafnlaunagreiningar spítalans en þetta kemur fram í tilkynningu um málið. Samstarfið kemur til með að auðvelda Landspítalanum að ná jafnlaunavottun fyrir lok árs.
“Samningurinn við Landspítala er þýðingarmikill fyrir PayAnalytics, bæði vegna þess að stærsti vinnustaður landsins sér sér hag í að taka lausnina okkar í notkun en ekki síst vegna metnaðarins sem við sjáum þau leggja í að útrýma kynbundnum launamun,“ segir Sigurjón Pálsson, framkvæmdastjóri PayAnalytics í tilkynningunni.
Samkvæmt tilkynningunni hafa fjölmörg fyrirtæki, sveitarfélög og stofnanir nýtt sér hugbúnaðarlausn PayAnalytics við launaákvarðanir en hugbúnaðurinn greinir launamun kynjanna og kemur með lausnir til úrbóta ásamt því að reikna kostnaðinn við aðgerðir til að eyða launabilinu.
„Við getum núna með auðveldum hætti haldið utan um launagreiningar og launaákvarðanir verða markvissari þar sem þær verða alltaf teknar út frá nýjustu upplýsingum,” segir Lúvísa Sigurðardóttir, verkefnisstjóri jafnlaunakerfis spítalans.