Sú 5,5 prósent hækkun sem nú er fyrirhuguð á gjaldskrá Landsnets til stórnotenda er varfærin í ljósi þess að hún hefur aðeins lækkað frá árinu 2013. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsneti.

„Landsnet hefur frá því í vor rætt um möguleika á því að fá meira svigrúm til innheimtu tekna með það að markmiði að draga úr hækkunarþörf á gjaldskrám og auka stöðugleika þeirra sem meðal annars er tilkomin vegna mikilla framkvæmda í kerfinu. Framkvæmda sem öllum er ljóst að eru mjög brýnar fyrir almenning og fyrirtæki í landinu. Því miður hefur ekki fengist niðurstaða hjá stjórnvöldum og því sér fyrirtækið ekki annan kost en að hækka gjaldskrár um áramótin," segir í tikynningu fyrirtækisins.

Aðspurð um hvaða stjórnvalds er vísað til, segir Steinunn Þorsteinsdóttir upplýsingafulltrúi Landsnets að þarna sé vísað til Orkustofnunar og ráðuneyti orkumála. „Í raforkulögum er heimild til flutnings á tekjum milli ára sem að okkar mati eru of þröngar."

Samhliða hækkun gjaldskrár stórnotenda verður einnig hækkuð gjaldskrá til dreifiveitna. „Fyrirhuguð breyting felur í sér að gjaldskrá til dreifiveitna hækkar um 9,9% frá og með 1. janúar 2021. Þar sem kostnaður við flutning til heimila og smærri fyrirtækja er einungis 10 - 15 % af rafmagnsreikningnum þá mun kostnaður þeirra einungis hækka um 1 – 1,5 % vegna þessarar hækkunar. Ástæða hækkunarinnar er fyrst og fremst miklar framkvæmdir í flutningskerfinu sem eru nauðsynlegar til þess að tryggja íbúum landsins öruggt aðgengi að rafmagni í takt við kröfur samtímans. Í óveðrunum síðasta vetur blöstu veikleikar kerfisins við og Landsnet er undir miklum þrýstingi að ráðast í úrbætur um allt land," segir í umfjöllun Landsnets.

Segja að eigandi geti lækkað arðsemiskröfu

Metinn fjármagnskostnaður Landsnets hefur verið nokkuð til umræðu á undanförnum vikum og mánuðum, en sérstök nefnd á vegum Orkustofnunar ákvarðar veginn fjármagnskostnað félagsins sem liggur svo meðak annars til grundvallar verðlagningu á þeirri þjónustu sem fyrirtækið veiti. Meðal þeirra þátta sem hafa áhrif á veginn fjármagnskostnað Landsnets er hlaupandi meðaltal skuldatryggingaálags íslenska ríkisins síðastliðin 10 ár, en gagnrýnendur hafa bent á að noktun þess álags svo langt aftur í tímann gefi skakka mynd af raunveruleikanum eins og hann er í dag.

„Ákvörðun um veginn fjármagnskostnað til Landsnets var síðast endurskoðuð í vor og var niðurstaðan sú að viðmið um arðsemi til eigenda fyrir árið 2021 vegna stórnotenda var lækkuð úr 7,54 prósent í 7 prósent. Landsnet sér fram á það að þessi viðmið munu halda áfram að lækka á næstu árum á grundvelli spár um áhættulausa vexti," segir Landsnet og bætir jafnframt við: „Frá stofnun Landsnets árið 2005 hefur sáralítill arður verið greiddur út til eigenda. Stuðningur eigenda við uppbyggingu kerfisins hefur þannig verið mikill og arðurinn af starfseminni farið í uppbyggingu þess. Síðustu árin hafa arðgreiðslurnar hins vegar farið vaxandi. Sé það vilji eigenda fyrirtækisins að lægri gjaldskrá sé mikilvægari en krafan um arðsemi til þeirra þá er ekki nauðsynlegt að knýja fram breytta ákvörðun um leyfða arðsemi. Samþykkt á hluthafafundi nægir til að taka ákvörðun um lægri arðsemi til eigenda en þá er Orkustofnun heimilar félaginu," en stærsti eigandi Landsnets er Landsvirkjun. Aðrir eigendur eru Orkubú Vestfjarða, RARIK og Orkuveita Reykjavíkur.

Snupra Samtök iðnaðarins

Landsnet beinir spjótum sínum að Samtökum iðnaðarins í fréttatilkynningu sinni, en þar eru samtökin gagnrýnd fyrir að fara með rangt mál um arðsemi Landsnets. „Landsnet hefur aldrei farið yfir leyfða arðsemi eins og SI heldur fram. Hagnaður Landsnets, fyrir fjármagnsliði og skatta, var á síðasta ári 50,2 milljónir dollara en heimild félagsins var 54,7 milljónir dollara. Hagnaður fyrir fjármagnsliði og arðsemi til eigenda var ákvarðaður um 221,5 milljónir fyrir árin 2016-2019, hagnaður fyrir fjármagnsliði og skatta (EBIT) fyrir sama tímabil var 220,3 milljónir. Orkustofnun birtir á heimasíðu sinni öll tekjumarkauppgjör þar sem þessi atriði koma fram og það er mikilvægt að umræðan sé byggð á faglegum grunni."

Landsnet segir jafnframt að Samtök iðnaðarins haldi því fram að nýleg skýrsla þýska ráðgjafarfyrirtækisins Fraunhofer sýni að flutningskostnaður raforku sé of hár á Íslandi.

„Erfitt er að finna rök í skýrslunni fyrir þessari fullyrðingu. Í skýrslu Fraunhofer eru þrjú lönd valin til samanburðar sem bjóða álverum hagstæð kjör. Niðurstaða Fraunhofer er sú að flutningskostnaðurinn sé hæstur í Kanada. Kostnaðurinn á Íslandi er heldur hærri en í Þýskalandi, Noregur er lang lægstur en þar njóta stórnotendur talsverðra tekna af orkuflutningi um sæstrengi til annarra landa. Sú staðreynd að flutningskostnaður á Íslandi sé nálægt kostnaðinum í Þýskalandi er merkileg enda aðstæður í löndunum ólíkar. Ísland er mun strjálbýlla en Þýskaland og dreifiveiturnar í Þýskalandi sinna hlutfallslega stærri svæðum. Á Íslandi eru 9,25 m af háspennulínum á hvern íbúa en í Þýskalandi 4,17 m. Þá eru veðuraðstæður á Íslandi mun verri. Þetta er raun góð niðurstaða fyrir Landsnet miðað við aðstæður hér á landi enda flutningskostnaður í Þýskalandi ekki hár á evrópskan mælikvarða," segir í umfjöllun Landsnets.