Landsnet hefur ákveðið að leggja Suðurnesjalínu 2 samkvæmt upprunalegum áætlunum, það er í formi loftlínu meðfram Suðurnesjalínu 1, að því er kemur fram í fréttatilkynningu frá Landsneti. Segir fyrirtækið að í kjölfar nýs umhverfismats hafi samtöl átt sér stað við sveitarfélög á svæðinu, Orkustofnun, landeigendur og aðra hlutaðeigandi. „Ákvörðunin byggir á grundvelli ákvæða raforkulaga sem kveða á um skyldur Landsnets um að byggja upp öruggt og hagkvæmt flutningskerfi raforku og stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfisins,“ segir í fréttatilkynningu.

Landsnet segir einnig að ekkert lát sé á jarðhræringum á Reykjanesi sem knýr frekar á um lagningu línunnar, svo að Suðurnesjasvæðið hafi aðra tengingu við meginflutningskerfi raforku á Íslandi. Landsnet sótti um framkvæmdaleyfi til sveitarfélaga á svæðinu þann 11.desember síðastliðinn.

Mikill styr hefur staðið um lagningu Suðurnesjalínu 2 allt frá árinu 2013. Landsnet fékk heimild Orkustofnunar til lagningu línunnar fyrir um sjö árum síðan með þeim tilmælum að semja þyrfti við landeigendur á svæðinu. Ef samningar næðust ekki, skyldi gert eignarnám. Á sama tíma var uppi þrýstingur frá náttúruverndarsinnum að línan skyldi lögð í jörðu, en slík lína er talsvert dýrari en loftlína.

Svo fór að Landsnet tók fjölda jarða eignarnámi árið 2014 að fenginni heimild frá þáverandi iðnaðarráðherra, Ragnheiði Elínu Árnadóttur, en ekki tókst að semja við landeigendur.

Á árunum 2015 og 2016 stóðu svo yfir átök um málið fyrir dómstólum, þar sem deilur landeigenda við Landsnet enduðu tvisvar fyrir Hæstarétti. Að endingu var eignarnám Landsnets ógilt í maí 2016 af Hæstarétti og í mars 2017 voru öll framkvæmdaleyfi Landsnets vegna línunnar felld úr gildi, meðal annars á þeim forsendum að fýsileiki jarðstrengs hefði ekki verið kannaður til hlítar.