Landsnet hefur tilkynnt stórnotendum flutningskerfis raforku á Íslandi að frá og með janúar næstkomandi muni gjaldskrá fyrirtækisins hækka um 5,5 prósent. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir iðnaðarráðherra segir að ráðgert sé að leggja fram breytingar á raforkulögum á komandi vorþingi, þar sem byggt verður á yfirstandandi greiningarvinnu sem snýr að tekjumörkum Landsnets.

Samhliða birtingu skýrslu þýska ráðgjafarfyrirtækisins Fraunhofer um samkeppnishæfni stóriðju á Íslandi með tilliti til raforkukostnaðar, tilkynnti iðnaðarráðuneytið að Deloitte á Íslandi hefði verið ráðið til að greina fyrirkomulag flutnings og dreifingu raforku á Íslandi.

„Til að bregðast við gagnrýni og ólíkum sjónarmiðum sem fram hafa komið, meðal annars á leyfða arðsemi, fjármagnskostnað, rekstrarkostnað og fleira, hefur ráðuneytið fengið Deloitte til að vinna óháða greiningu og rýni á lagalegu umhverfi við setningu tekjumarka sérleyfisfyrirtækja. Hluti af greiningunni er að leggja mat á hvaða atriði hafa áhrif á reiknuð tekjumörk, og með hvaða hætti, ásamt samanburði við önnur lönd,“ sagði í tilkynningu ráðuneytisins.

Þórdís Kolbrún segist reikna með því að úttekt Deloitte á regluverki í kringum flutningskerfi raforku hér á landi muni fela í sér tillögur til úrbóta, en niðurstöður vinnunnar eiga að liggja fyrir í byjrun næsta árs. Ráðherrann segir jafnframt að fljótlega muni línur skýrast varðandi eignarhald Landsnets, en lengi hefur verið rætt um að ríkissjóður kaupi fyrirtækið, sem nú er í eigu Landsvirkjunar, RARIK, Orkubús Vestfjarða og Orkuveitu Reykjavíkur.

„Ráðgert er að leggja fram frumvarp á vorþingi um breytingu á raforkulögum, sem byggt verður á þessari greiningarvinnu, ásamt öðru efni sem unnið er að sem stendur. Um er að ræða faglega, óháða rýni á framangreindu regluverki og beitingu þess, með áherslu á samkeppnishæfni út frá flutnings- og dreifikostnaði raforku, tækifæri til hagræðingar og aukinnar skilvirkni, og jöfnun orkukostnaðar í landinu,“ segir iðnaðarráðherra.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir iðnaðarráðherra segir að ráðgert sé að leggja fram breytingar á raforkulögum á komandi vorþingi.
Fréttablaðið/Anton Brink

„Greining Deloitte snýr að regluverki um setningu tekjumarka Landsnets og dreifiveitna, sem stýra gjaldskrám þessara sérleyfisfyrirtækja. Lagt verður mat á hvaða atriði hafa áhrif á tekjumörkin og með hvaða hætti, ásamt samanburði við önnur lönd. Einnig verður lagt mat á hvernig eftirliti og eftirfylgni með setningu tekjumarka er háttað, meðal annars hvernig kröfu um hagræðingu er fylgt eftir,“ segir Þórdís Kolbrún og bætir við:

„Í nýlegri skýrslu þýska fyrirtækisins Fraunhofer um samkeppnishæfni stóriðju á Íslandi með tilliti til raforkukostnaðar, kemur fram að flutningskostnaður stórnotenda hér á landi sé almennt sambærilegur við Quebec í Kanada en hins vegar almennt hærri en í Noregi og Þýskalandi. Þess er vænst að skýrsla Deloitte varpi ljósi á leiðir til að styrkja samkeppnishæfni Íslands hvað þetta varðar.“

Beint eignarhald ríkisins á Landsneti mun gera Landsnet hæfara til að sinna sínum mikilvægu hlutverkum.

Ríkisstjórnin ákvað á fundi sínum í desember um að taka upp viðræður við núverandi eigendur Landsnets um kaup á fyrirtækinu. „Beint eignarhald ríkisins á Landsneti mun gera Landsnet hæfara til að sinna sínum mikilvægu hlutverkum og skýra og skerpa hlutverk aðila á raforkumarkaði,“ segir Þórdís Kolbrún. Hún bætir því við að úttekt Deloitte eigi einnig að svara því hvernig eftirliti og eftirfylgni Orkustofnunar með tekjumörkum Landsnets sé háttað. Kannað verði hvort efla þurfi starf Orkustofnunar eða endurskoða verkferla og forgangsröðun verkefna.

Veginn fjármagnskostnaður Landsnets, sem er metinn einu sinni á ári af sérstakri nefnd Orkustofnunar, er af mörgum sagður of hár. Það orsaki svo það að gjaldskrá Landsnets sé með þeim hætti að hún grafi undan samkeppnishæfni íslensks orkumarkaðar, en flutningskostnaður stórnotenda er jafnan 6 dalir á megavattstund.

Greint hefur verið frá því að hinn metni, vegni fjármagnskostnaður Landsnets endurspegli ekki raunverulegan fjármagnskostnað fyrirtækisins. Það er ekki síst vegna þeirra breytna sem lagðar eru til grundvallar. Einkum hefur notkun 10 ára hlaupandi meðaltals skuldatryggingarálags íslenska ríkisins verið gagnrýnd, en skuldatryggingaálag Íslands var enn þá í hæstu hæðum á fyrri hluta undanliðins áratugar þar sem mál á borð við Icesave-deiluna höfðu ekki enn verið leidd til lykta.

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.

Tímasetningin með ólíkindum


Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, segir algerlega óskiljanlegt að Landsnet ætli að hækka gjaldskrá sína í janúar: „Hækkunin leggst á öll heimili og fyrirtæki landsins, langt umfram almenna hækkun verðlags á Íslandi og tímasetningin er með ólíkindum.

Í fyrsta lagi vegna þess sem sýnt hefur verið fram á, að arðsemi fyrirtækisins er langt umfram það sem ætla má hjá fyrirtæki með lögbundnum tekjumörkum. Í öðru lagi vegna þess að nýútkomin skýrsla Fraunhofer um íslenska raforkumarkaðinn sýndi með óyggjandi hætti að flutningskostnaður raforku á Íslandi er allt of hár. Í þriðja lagi vegna þess að iðnaðarráðherra hefur nýlega óskað eftir úttekt á fyrirkomulagi flutnings raforku á Íslandi með tilliti til kostnaðar notenda, sem er nú þegar mjög íþyngjandi. Ástæða þess er að allir eru sammála um að vandinn sé raunverulegur en ekki er vitað hvar hann liggur nákvæmlega. Það þarf að greina til hlítar og gera viðeigandi ráðstafanir."

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar.

Sýnir að úrbóta er þörf


„Þetta sýnir að úrbóta er þörf á regluverkinu í kringum Landsnet, á sama tíma að við reynum að standa með viðskiptavinum okkar á erfiðum tímum með auknum sveigjanleika og tímabundnum verðlækkunum þá hækka gjaldskrár Landsnets,“ segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar. Landsvirkjun er í dag stærsti eigandi Landsnets, en Hörður hefur áður stutt það að Landsnet færist í eigu ríkissjóðs.

Landsvirkjun stendur jafnframt að að baki meirihluti tekna Landsnets. Í eldri raforkusamningum Landsvirkjunar gagnvart stórnotendum er flutningskostnaður innifalinn í heildarverðinu. „Við getum ekki velt þessu yfir á okkar viðskiptavini,“ segir Hörður, en afkoma Landsvirkjunar mun því versna sem nemur gjaldskrárhækkunum Landsnets vegna samninga með inniföldum flutningskostnaði.