Yfir­völd á Sri Lanka hafa stöðvað sölu á elds­neyti til lands­manna næstu tvær vikurnar. Efna­hags­á­stand landsins er afar bág­borið um þessar mundir og hafa yfir­völd átt í stökustu vand­ræðum með að flytja inn nauð­synjar á borð við elds­neyti og mat.

Í frétt BBC kemur fram að að­eins strætis­vagnar, lestar og öku­tæki lög­reglu, slökkvi­liðs og sjúkra­liðs muni hafa að­gang að olíu og bensíni. Skólum á strjál­býlli svæðum hefur verið lokað og þá yfir­völd biðlað til fólks um að sinna vinnu sinni heima ef það mögu­lega getur.

Sri Lanka fór býsna illa út úr kórónu­veirufaldrinum og þá hefur hækkandi heims­markaðs­verð á olíu gert þunga stöðu enn þyngri. Er nú svo komið að yfir­völd á Sri Lanka eiga ekki nægan gjald­eyris­forða til að greiða fyrir inn­flutning á nauð­synjum.

Að­gerðirnar sem til­kynntar voru í gær munu gilda til 10. júlí næst­komandi og er við­búið að þær muni hafa mikil á­hrif á þær 22 milljónir manna sem búa í þessu ey­ríki út af suð­austur­strönd Ind­lands­skaga.