Hagstofa Íslands áætlar að landsframleiðslan á fyrstu þremur mánuðum ársins hafi dregist saman að raungildi um 1,2 prósent frá sama ársfjórðungi í fyrra, eftir því sem fram kemur í nýrri fréttá vef stofnunarinnar.

Þrátt fyrir umtalsverð neikvæð áhrif utanríkisviðskipta á hagvöxt á fyrsta ársfjórðungi, sem að miklu leyti má rekja til samdráttar í ferðaþjónustu, jukust þjóðarútgjöld að raungildi á tímabilinu.

Þjóðarútgjöld, sem eru samtala neyslu og fjárfestingar, jukust um 2,9 prósent að raungildi á fyrsta ársfjórðungi, að sögn Hagstofunnar, borið saman við sama tímabil fyrra árs. Vöxtur einkaneyslu mældist 0,9 prósent en vöxtur samneyslu 2,3 prósent. Fjármunamyndun jókst um 4,1 prósent frá sama tímabili fyrra árs sem einkum skýrist af grunnáhrifum útflutnings flugvéla á sama tímabili fyrra árs en án fjármunamyndunar í skipum og flugvélum mældist 15,8 prósent samdráttur í fjármunamyndun samanborið við sama tímabil á síðasta ári.

Þar sem útflutningur dróst meira saman en innflutningur á fyrsta fjórðungi ársins er framlag utanríkisviðskipta í heild til hagvaxtar neikvætt.