Breski vogunarsjóðurinn Landsdowne Partners hefur aukið við eignarhlut sinn í Arion banka um tæplega eitt prósent og fer nú með rúmlega fimm prósenta hlut í bankanum.

Þetta kemur fram í flöggun frá sjóðnum til Kauphallarinnar rétt í þessu. Miðað við núverandi hlutabréfaverð Arion banka er hlutur sjóða í stýringu Landsdowne metinn á liðlega sjö milljarða króna.

Landsdowne, sem hefur komið að fjárfestingum í ýmsum skráðum félögum á Íslandi síðustu misseri, var á meðal þeirra fjárfesta sem keyptu tuttugu prósenta hlut Kaupþings í Arion banka en eignarhaldsfélagið, eins og greint frá í Markaðinum í gær, seldi allan hlut sinn í bankanum fyrir 27,4 milljarða króna.

Tæplega tíu milljarðar króna af söluandvirðinu fellur í skaut ríkissjóðs á grundvelli afkomuskiptasamnings sem var á meðal þeirra stöðugleikaskilyrða sem Kaupþing þurfti að undirgangast við samþykkt nauðasamninga í árslok 2015.

Gengið var frá bindandi samkomulagi við hóp fjárfesta um kaupinn þann 1. júlí síðastliðinn með þeim fyrirvara að ríkið myndi ekki að stíga inn í viðskiptin og nýta sér forkaupsrétt sinn.

Hlutabréfaverð Arion banka lækkaði um tæplega 0,9 prósent í viðskiptum dagsins og stendur gengi bréfa félagsins í 78 krónum á hlut. Markaðsvirði bankans er rúmlega 141 milljarðar króna.