Landsbankinn, sem hefur markað nýja stefnu til framtíðar, gæti staðið uppi sem eini ríkisbankinn á markaði sem er í umbreytingaskeiði. Lilja Björk Einarsdóttir bankastjóri segir að bankinn þurfi að vera samkeppnishæfur. Með góðri þjónustu, aukinni markaðshlutdeild og aukinni skilvirkni geti Landsbankinn náð hárri arðsemiskröfu ríkisins en það gæti þó tekið nokkur ár.

„Stór eigandi eins og ríkið hefur áhrif á starfsemina að því leyti að hann markar eigandastefnu og setur þannig mark á starfsemina. En við störfum mjög vel inni í þessari umgjörð og eignarhaldið breytir ekki þeirri staðreynd að við þurfum að vera samkeppnishæf í arðsemi,“ segir Lilja Björk, spurð hvernig það leggist í hana að stýra eina bankanum sem verður að fullu leyti í eigu ríkisins. Ríkið áformar að selja eignarhlut í Íslandsbanka, og samruni TM og Kviku myndar nýjan keppinaut á markaðinum.

„Lögmálin sem gilda um okkur eru þau sömu og gilda um aðra. Það er númer eitt, tvö og þrjú að vera samkeppnishæf.“

„Lögmálin sem gilda um okkur eru þau sömu og gilda um aðra. Það er númer eitt, tvö og þrjú að vera samkeppnishæf og það næst ekki nema með því að þjónusta viðskiptavini okkar vel,“ bætir Lilja

Landsbankinn kynnir nú nýja stefnu – Landsbanki nýrra tíma – fyrir viðskiptavinum en hún kemur í kjölfar þess að bankinn náði öllum sínum markmiðum í sjálfsafgreiðslu sem sett voru fyrir þremur árum.

„Nýja stefnan leiðir okkur enn lengra áfram og snýst í grunninn um að einfalda fólki lífið. Það er kjarni stefnunnar. Við viljum geta nýtt nýjustu tækni til þess að þjónusta fólk og bregðast við þeirri samkeppni sem er í kringum okkur,“ segir Lilja.

Vinna við nýju stefnuna hófst á síðasta ári og náðist rétt svo að klára starfsmannafundi fyrir samkomutakmarkanir. „Við vorum komin langleiðina þegar COVID brast á. Þegar óvissan var sem mest í mars og apríl tókum við pásu og til að einblína á breytta þjónustu við viðskiptavini okkar.“

Nýja stefnan, sem var að langmestu leyti mörkuð af starfsfólki bankans, hefur nú verið kynnt með auglýsingaherferð og nýju vefsvæði sem fór nýlega í loftið. Að sögn Lilju er von á fleiri nýjungum í þjónustu á næstu misserum.

„Traustið er gott akkeri. Ég hef oft sagt að það sé ekki slæmt að ákveðinn stöðugleiki og íhaldssemi einkenni bankaþjónustu.“

Þá segir hún að í stefnumörkuninni hafi traust verið valið gildi Landsbankans.

„Við ræddum við marga viðskiptavini og það var aðeins eitt sem stóð upp úr: traust. Viðskiptavinir vilja ábyrgan og vel rekinn banka sem veitir góða þjónustu á hagstæðum kjörum. Þetta kom ítrekað fram, bæði í máli viðskiptavina og starfsfólks,“ segir Lilja.

„Við viljum að allir viðskiptavinir skynji að við lítum á viðskiptasambönd sem langtímasambönd sem fela í sér gagnkvæman ávinning. Það er traustið sem við viljum viðhalda og efla.“

Þið veljið sígilt frekar en framúrstefnulegt gildi.

„Já, traustið er gott akkeri. Ég hef oft sagt að það sé ekki slæmt að ákveðinn stöðugleiki og íhaldssemi einkenni bankaþjónustu. Traust byggir meðal annars á þessu en líka á því að vera banki nýrra tíma og horfa til framtíðar.“

Tekur tíma að ná arðsemiskröfu

Getur Landsbankinn staðið undir arðsemiskröfu ríkisins?

„Við vorum að skila góðri afkomu áður en faraldurinn skall á en þá þurftum við að taka ákvarðanir um varúðarniðurfærslur á lánum sem hafði veruleg áhrif á arðsemi síðasta árs. Á móti bættum við margt í rekstrinum og Landsbankinn kemur því vel út úr COVID. En það verður erfitt að ná langtímmarkmiði um 10 prósent arðsemi á næstunni. Við þurfum að halda áfram að auka við markaðshlutdeild bankans og einnig að auka skilvirkni innan bankans. Þetta getur tekið nokkur ár,“ segir Lilja.

Á þriðja ársfjórðungi var arðsemi eigin fjár eftir skatta 6,5 prósent en 5,4 prósent fyrir sama tímabil árið 2019.

„Einnig þarf að minnka kvaðir á bankastarfsemi, sérstaklega eiginfjárkröfur, sem eru hærri á Íslandi en víðast hvar á Vesturlöndum. Kvaðirnar hafa gríðarleg áhrif á arðsemina og skekkja samanburð við erlenda banka, sem aftur getur haft áhrif á kjör bankanna við fjármögnun.“

Hefur Landsbankinn sérstöðu á markaðinum?

„Ef þú skoðar landakortið þá sérðu að Landsbankinn hefur viðhaldið víðtæku neti afgreiðslustaða í samanburði við aðra banka. Ein helsta sérstaða bankans er að vera með góðar tengingar um allt land sem nýtast til að rækta viðskiptasambönd,“ segir Lilja. Auk þess hafi síðustu mánuðir sýnt að útibúin geti starfað sem eitt þegar á þarf að halda.

„Það sem hefur komið í ljós í kófinu, og þeirri húsnæðislánabylgu sem fylgdi, er að við gátum nýtt útibúanetið til þess að vinna hraðar úr málum. Þannig var starfsfólk meðal annars á Dalvík og Ólafsvík að þjónustu viðskiptavini sem voru að kaupa íbúðir í Vogabyggð eða Hafnarfirði. Við störfuðum sem eitt sterkt Landsbankanet.“

Hvað með starfskjörin? Mun Landsbankinn geta laðað til sín öflugt starfsfólk þegar keppinautarnir hafa innleitt kaupaukakerfi?

„Við erum að greiða samkeppnishæf laun þó svo að þau séu ekki leiðandi á markaði. Við erum ekki með kaupaukakerfi en aftur á móti eru aðrir þættir sem hvetja fólk áfram í starfi. Sem dæmi má nefna að starfsánægja í Landsbankanum hefur aldrei verið meiri, sama gildir um ánægju viðskiptavina og við erum að sjá fleiri viðskiptavini koma til bankans. Það er ýmislegt annað en krónan í umslaginu sem skiptir fólk máli. En aftur, þá erum við að greiða samkeppnishæf laun og munum gera það áfram.“

Héldu lífi í byggingageiranum

Mikill vöxtur var í útlánum banka til húsnæðiskaupa á síðasta ári. Mörg heimili færðu lánin sín frá lífeyrissjóðum yfir til banka sem bjóða betri kjör á óverðtryggðum lánum.

Landsbankinn hefur nýtt tækifærið til að auka við hlutdeild sína á markaðinum. Á fyrstu níu mánuðum ársins tóku um 7.700 einstaklingar og fjölskyldur íbúðalán eða endurfjármögnuðu eldri íbúða­lán á betri kjörum hjá Landsbankanum. Um 800 voru að kaupa sína fyrstu fasteign.

„Þetta tókst heldur betur enda er byggingargeirinn að koma vel út úr þessari niðursveiflu.“

„Það eru nokkrir þættir sem spila inn í þessa þróun. Í fyrsta lagi leiddu vaxtalækkanir til þess að heimilin færðu sig úr verðtryggðum lánum, þar sem lífeyrissjóðir gátu boðið góð kjör, yfir í óverðtryggð lán, þar sem við erum sterkari vegna þess hvernig fjármögnun bankanna er samsett,“ útskýrir Lilja.

„Í öðru lagi tókum við þá ákvörðun í byrjun COVID að leggja sérstaka áherslu á byggingargeirann því það er jafnan sá geiri sem lendir fyrst í vandræðum þegar kreppir að í hagkerfinu. Við gættum þess að vera samkeppnishæf í útlánum til þess að halda lífi í markaðinum þannig að byggingargeirinn hefði burði til að ráðast í frekari verkefni. Þetta tókst heldur betur enda er byggingargeirinn að koma vel út úr þessari niðursveiflu.“

Ummæli Lilju ríma við það sem Ásgeir Jónsson hefur sagt um mikilvægi fasteignamarkaðarins. Hann benti á að sterkur fasteignamarkaður væri lykillinn að því að halda hagkerfinu gangandi í þessu ástandi.

Þá ítrekar Lilja að sterkt útibúanet Landsbankans hafi verið lykilþáttur í því að auka við hlutdeild bankans á húsnæðislánamarkaði. „Flestir viðskiptavinir sækja um íbúðarlán með rafrænum hætti en síðan vilja þeir ljúka ferlinu með samtali. Við bjuggum til nýtt biðraðakerfi þannig að öll útibú gætu sinnt þessum markaði. Afgreiðslutíminn var stuttur og allir lögðust á eitt við að gera bankann að öflugum lánveitanda í húsnæðislánum.“

Er fyrirséð að bankar, en ekki lífeyrissjóðir, verði áfram ráðandi í húsnæðislánum á meðan vaxtastigið er svona lágt?

„Mér sýnist það og að mínu mati er eðlilegra að þátttaka lífeyrissjóða, sem eru ekki með sömu lagaumgjörð og bankar, felist í því að fjárfesta í sértryggðum skuldabréfum sem fjármagnar lánveitingar bankanna, frekar en að veita húsnæðislán til heimila með beinum hætti.“

Minni áhrif á skuldsett heimili

Strax í mars á síðasta ári áttu fjármálastofnanir frumkvæði að því að gera með sér samkomulag um tímabundna greiðslufresti á lánum til fyrirtækja.

„Fyrst gerðu fjármálastofnanir með sér samkomulag sem tryggði sambærilega úrlausn fyrir öll fyrirtæki. Það var mikilvægt að skapa fyrirsjáanleika og koma öllum í skjól þegar óljóst var hvað væri í gangi. Ég hélt í fyrstu að þetta væri tímabundið ástand og að allt yrði komið á blússandi siglingu í júní. En hérna erum við í janúar ári síðar og enn er allt lokað,“ segir Lilja.

Þegar samkomulagið rann út þurftu bankarnir að meta hvert tilfelli fyrir sig. Algengasta úrræðið fyrir fyrirtækja sem hafa orðið verst úti í faraldrinum eru frystingar lánum. Einnig er greiðsluflæði fyrirtækja aðlagað að tekjunum sem þau búast við að fá næsta sumar. Útlán í frystingu eru um 7 prósent af útlánasafni bankans miðað við lánsfjárhæð.

Hlutfall lána í vanskilum hjá stóru bönkunum nam nærri 9 prósentum í október. Það jókst talsvert frá því í ágúst og hefur ekki verið hærra frá því árið 2013. Vanskilin voru þó að mestu leyti bundin við ferðaþjónustuna. Hlutfallið í þjónustugreinum var 32 prósent í október samanborið við 16 prósent í ágúst og 5 prósent í desember 2019. Megnið af þeim lánum sem falla undir vanskil eru lán í frystingu, alls 31 milljarður króna.

„Það má segja að ferðaþjónustan hafi annars vegar skorið inn að beini þannig að hún rétt nær að viðhalda verðmæti eigna og í framhaldi er búið að semja við fjármálastofnanir og aðra kröfuhafa þannig að fyrirtækið geti lifað af fram til sumars þegar ferðamenn koma til landsins á ný. Við viljum að þessi fyrirtæki lifi og dafni,“ segir Lilja.

Fréttablaðið/Ernir

Vanskilahlutfall heimilanna lækkaði hins vegar úr 3 prósentum niður í 2 prósent á milli ágúst og október. Þessi þróun getur átt sér nokkrar skýringar að sögn Lilju.

„Vaxtalækkanir hafa valdið því að greiðslur af íbúðaláni hafa farið minnkandi og þannig hefur skapast svigrúm hjá heimilum. Auk þess tekur töluverðan tíma að lenda í vanskilum með íbúðalán. Við sjáum ekki endilega að tekjumissir t.d. vegna atvinnuleysis sé mestur hjá þeim sem eru með íbúða­lán. Kórónukreppan hefur áhrif á heimilin en ekki endilega þau sem skulda mest.“

Mismunandi sýn á áhættu

Landsbankinn eignaðist nýlega þriðjungshlut í Keahótelum, einni stærstu hótelkeðju landsins, þegar bankinn tók þátt í endurskipulagningu félagsins ásamt hluthöfum keðjunnar og öðrum kröfuhöfum. Hluthafar komu inn með nýtt hlutafé gegn því að bankinn skuldbreytti hluta af lánum sínum til Keahótela í hlutafé.

Þá var bankinn einnig stærsti kröfuhafi vélsmiðjunnar VHE, sem er nálægt því að ná nauðasamningum við kröfuhafa. Samningarnir fela í sér skuldaniðurfellingu, sölu á dótturfélögum og aukningu hlutafjár af hálfu eigenda fyrirtækisins. Allt frá fjármálahruninu hafði VHE glímt við þunga skuldsetningu

Er hætta á því að fyrirtæki verði of skuldsett þegar COVID er liðið hjá? Og sérðu fram á að bankinn muni í auknum mæli þurfa að taka þátt í eða knýja fram endurskipulagningu hjá fyrirtækjum til að bæta skuldastöðuna?

„Staða fyrirtækja fyrir COVID var almennt séð góð og þau sem hafa lent í erfiðleikum vegna COVID munu vonandi flest koma sterk til baka ef tekst að koma starfsemi og ferðaþjónustu í gang nú í sumar. Ef fyrirtæki búa yfir eignum til að skapa tekjur þegar hjól efnahagslífsins byrja að snúast að nýju þá viljum við frekar halda fyrirtækjum í vari þangað til,“ útskýrir Lilja.

„Hvað endurskipulagningu varðar þá þarf að meta hvernig reksturinn verður í kjölfarið. Það er ekki gott ef fyrirtæki burðast með of miklar skuldir en við forðumst að fara í stærri aðgerðir nema þörf sé á. Þetta eru oft flókin mál þar sem margir aðilar þurfa að koma sér saman um ákveðna lausn,“ segir Lilja.

„Bankar voru með mismunandi sýn á hversu miklar varúðarniðurfærslurnar ættu að vera. Þeir voru allir að horfa á sömu efnahagstölurnar en svo voru dregnar mismunandi ályktanir.“

Á fyrstu níu mánuðum ársins nam virðisrýrnun útlána Landsbankans um 13,6 milljörðum króna, sem jafngildir um 1 prósenti af eignasafni bankans, samanborið við 3,4 milljarða króna á sama tímabili 2019. Virðisrýrnunin var að langmestu leyti bókfærð á fyrri helmingi ársins og byggði meðal annars á ítarlegu mati á væntu útlánatapi vegna áhrifa COVID-19. Virðisrýrnun útlána á þriðja ársfjórðungi nam aðeins um 120 milljónum króna.

Sérðu fyrir þér að hluti af þessari virðisrýrnun verði bakfærð þegar hagkerfið tekur við sér?

„Það er stóra spurningin, það er að segja hver hefur rétt fyrir sér því bankar voru með mismunandi sýn á hversu miklar varúðarniðurfærslurnar ættu að vera. Þeir voru allir að horfa á sömu efnahagstölurnar en svo voru dregnar mismunandi ályktanir. Við vorum varkár í okkar mati og færðum mikið niður til að mæta mikilli óvissu,“ segir Lilja.

„Á fjórða ársfjórðungi hefur staðan ekki versnað. Við virðumst hafa náð að leggja nokkuð framsýnt og varfærið mat á stöðuna en svo leiðir tíminn í ljós hvað gerist. Núna snýst þetta allt um hversu greiðlega gengur að bólusetja landsmenn. Ef það gengur vel og hjólin fara aftur að snúast þá verðum við með umtalsvert af varúðarfærslum. Hugsanlega yrði einhver hluti bakfærður en það veltur á ýmsum þáttum, meðal annars því hvernig áhætta verður metin eða útlánasafn stækkar.“

Vill meiri bindingu til að viðhalda hringrásinni

Á árinu 2020 varð mikil aukning í innlánum heimila í bankakerfinu en öll aukningin fór á óbundna reikninga, sem hafa lítil áhrif á útlánagetu bankanna, fremur en bundna reikninga.

„Kannski mætti breyta umgjörðinni um lífeyriskerfið þannig að hluti af sparnaðinum fari í bundinn reiðufjársparnað í fjármálakerfinu sem væri skattfrjáls sparnaður til langs tíma.“

Veltilán og óbundin innlán heimila höfðu aukist úr 524 mill­jörðum króna í byrjun árs 2020 upp í 615 milljarða í lok nóvember en yfir sama tímabil jukust verðtryggð innlán og önnur óbundin innlán einungis úr 260 milljörðum króna í 262 milljarða.

„Við sjáum að fólk bindur ekki innlán til langs tíma nema að mjög litlu leyti, enda er megnið af sparnaðinum bundið í lífeyriskerfinu. Það er ákveðið áhyggjuefni vegna þess að það er jákvætt að bankakerfi fjármagni sig með innlánum.

Með bundnum innlánum eykst útlánageta banka til heimila og fyrirtækja, og þannig viðhöldum við eðlilegri hringrás í kerfinu ásamt því að skapa skilyrði fyrir efnahagsviðspyrnuna sem við þurfum svo sannarlega á að halda,“ segir Lilja og veltir upp þeirri spurningu hvernig auka megi bundin innlán heimila.

„Kannski mætti breyta umgjörðinni um lífeyriskerfið þannig að hluti af sparnaðinum fari í bundinn reiðufjársparnað í fjármálakerfinu sem væri skattfrjáls sparnaður til langs tíma. Þetta kæmi einstaklingum vel og væri ákjósanlegt til að auka fjölbreytni í lífeyrissparnaði.

Keppnishugur í sjálfbærnimálum

Landsbankinn er langt kominn með að útbúa ramma fyrir sjálfbæra fjármögnun. Bankinn áformar að fjármagna sig erlendis á þessu ári og að sögn Lilju vill bankinn gera það undir sjálfbærniramma.

„Sjálfbærni er orðin svo stór hluti af veruleikanum á fjármálamarkaði og því mati sem aðrir leggja á okkur sem fjármálafyrirtæki. Við bæði viljum og þurfum að skara fram úr í sjálfbærni,“ segir Lilja.

„Þessi hugmyndafræði var ekki til á síðustu bankaöld, hlutirnir hafa breyst mikið síðan þá.“

Bankarnir hafa verið iðnir við að kynna sjálfbærnivörur á markaði. Er kapphlaup á milli bankanna um að vera fyrstir til að kynna nýjungar í sjálfbærnimálum á markað?

„Inntakið í sjálfbærni er að allir vinna þegar allir taka þátt. Að því sögðu þá auðvitað keppnisskap á þessu sviði eins og öðrum. Bankarnir og önnur fyrirtæki keppast um að vera fyrst og sá sem er á undan hvetur aðra áfram. Mér finnst auðvitað eins og öðrum gaman að vera fyrst með vöru á markað en í þessum málum skiptir mestu máli að vanda til verka. Við höfum starfað að sjálfbærnimálum í fjölmörg ár og ætlum okkur ávallt að vera framarlega, þannig að það skili sér til viðskiptavina okkar og hluthafa.“