Gangi spáin eftir fer 12 mánaða verðbólga úr 7,2 prósentum í 7,6 prósent. Bankinn spáir því að verðbólgan muni halda áfram að aukast fram í ágúst og að hún toppi þá í 8,2 prósentum. Upp hjaðni verðbólgan hægt. Bankinn spáir því að verðbólga án húsnæðis haldi einnig áfram að aukast og fari hæst í 6,2 prósent í ágúst áður en hún hjaðni á ný.

Fyrr í vikunni birti Íslandsbanki sína verðbólguspá og spáir hann eilítið minni hækkun verðlags milli apríl og maí en Landsbankinn.

Þeir liðir sem vega langmest til hækkunar verðlags milli apríl og maí eru annars vegar matur og drykkur og hins vegar reiknuð húsaleiga. Áhrif þessara liða eru samtals 0,57 prósent af heildarhækkun vísitölunnar upp á 0,78 prósent. Samkvæmt verðkönnun bankans hækkaði bensínverð um 2,2 prósent og eru áhrif þess til hækkunar vísitölunnar 0,08 prósent.

Flugfargjöld komin á sama feril og fyrir faraldur

Árstíðarsveiflumynstrið í flugfargjöldum gufaði upp í faraldrinum en miðað við fyrstu 4 mánuði ársins hafa verðbreytingar milli mánaða verið með mjög sambærilegum hætti og 2019, síðasta árið fyrir faraldur. Við gerum ráð fyrir að verðbreytingar það sem eftir lifir árs muni fylgja árstíðarsveiflu ársins 2019 náið eftir, þó þannig að verðið hækki nokkuð yfir árið, meðal annars vegna hærra olíuverðs og meiri eftirspurnar.

Verðhækkanir á húsnæði munu minnka

Reiknuð húsaleiga hækkaði um 2,4 prósent milli mánaða í apríl sem er mesta hækkun hennar síðan í apríl í fyrra þegar hún mældist 2,5 prósent. Verðhækkanir á húsnæði hafa verið miklar undanfarna mánuði en bankinn telur að draga muni úr þessum hækkunum. Hann spáir því að verð á húsnæði á landsvísu hækki um 2,3 prósent milli mánaða í maí samkvæmt mælingum Hagstofunnar.

Hagstofan mælir verðbreytingar á milli mánaða á annan hátt en Þjóðskrá en Hagstofan horfir á breytingu milli mánaða á 3 mánaða hlaupandi meðaltali. Á næstu mánuðum spáir Landsbankinn minni hækkunum og að þær verði komnar undir 1 prósent í september. Fasteignaverð ásamt hækkunum í mat og drykk muni bera uppi hækkanir á almennu verðlagi á næstu mánuðum.

Miklar hækkanir á matarkörfunni

Verðhækkanir á mat og drykk hafa verið miklar erlendis að undanförnu. Mikil hækkun á hrávöruverði og hækkandi flutningskostnaður eiga þar stóran hlut að máli. Sé litið til stærstu viðskiptalanda okkar mældist 4,3 prósent verðhækkun á mat og drykk miðað við heilt ár á Norðurlöndunum í mars. Þar skar Noregur sig verulega frá en verðið þar hefur ekkert hækkað síðustu 12 mánuði. Meðaltalið hjá Norðurlöndunum án Noregs var 5,8 prósent. 12 mánaða hækkun á mat og drykk í stóru hagkerfunum í Vestur-Evrópu var að meðaltali 5,5 prósent á sama tíma og mældist hækkunin 10 prósent í Bandaríkjunum.

Hér á landi var hækkunin 5 prósent. Þar hefur styrking krónunnar unnið með okkur en evran hefur lækkað um 7 prósent í verði gagnvart krónu milli mars á þessu ári og mars í fyrra. Á fyrstu þremur mánuðum ársins urðu miklar verðhækkanir. Miðað við heilt ár var verðhækkunin var mest á Norðurlöndum, 19,6 prósent, en þar á eftir komu Bandaríkin með 17,6 prósent og stóru Evrópuríkin með 11,1 prósent. Hér á landi nam verðhækkunin 11,2 prósent.

Óvissa um verðbólguþróun

Þetta eru sögulegir tímar hvað verðbólgu varðar í heiminum enda eru víða áratugir frá því að verðbólga mældist jafn mikil. Þróunin hefur aukið verulega óvissuna um verðbólguþróunina fram á við bæði hér heima og erlendis. Mikil óvissa um verðbólguþróun erlendis eykur verðbólguóvissuna hér á landi en bankinn telur að styrking krónunnar muni styðja við hjöðnun verðbólgunnar.