Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri hagspá Hagfræðideildar Landsbankans sem nær til ársloka 2024.

Una Jónsdóttir, forstöðumaður Hagfræðideildar Landsbankans, segir: „Almennt má segja að útlitið sé bjart. Við spáum því að hagvöxtur verði 5,1 prósent í ár, sem er nokkuð meiri vöxtur en í fyrra, og að hann verði drifinn áfram af fjölgun ferðamanna. Við gerum ráð fyrir að á þessu ári komi 1,5 milljón ferðamanna til landsins og að þeim fjölgi í 2,4 milljónir árið 2024 – sem yrði metfjöldi á einu ári. Við gerum ráð fyrir að Seðlabankinn muni bregðast við meiri og þrálátari verðbólgu með því að hækka vexti verulega, eða upp í 6 prósent, áður en hægt verður að lækka vexti á nýjan leik. Það flækir stöðuna talsvert að kjarasamningar eru lausir, á sama tíma og verðbólgudraugurinn herjar á landann. Við gerum ráð fyrir kaupmáttur vaxi hægt til ársins 2024.“

Helstu atriði hagspár Landsbankans:

  • Gert er ráð fyrir að landsframleiðslan hér á landi aukist um 5,1 prósent á árinu 2022. Útflutningur eykst um 19,4 prósent, einkaneysla um 3,5 prósent og heildarfjármunamyndun um 6,2 prósent. Reiknað er með samfelldum hagvexti næstu tvö árin, 3,7 prósent á næsta ári og 2,8 prósent árið 2024.
  • Gert er ráð fyrir um 1,5 milljónum erlendra ferðamanna í ár, 2 milljónum á næsta ári og um 2,4 milljónum árið 2024, fleiri en nokkru sinni fyrr. Árið 2021 voru erlendir ferðamenn 690 þúsund.
  • Draga muni úr atvinnuleysi eftir því sem líður á árið og næstu ár en útlit sé fyrir að skráð atvinnuleysi verði að meðaltali 4,5 prósent á þessu ári, lækki í 4,2 prósent á næsta ári og verði 3,9 prósent árið 2024.
  • Gert er ráð fyrir að viðskiptajöfnuður við útlönd verði jákvæður um að meðaltali 0,7 prósent af landsframleiðslu á spátímanum.
  • Verðbólgan nái hámarki á þriðja ársfjórðungi og verði yfir markmiði Seðlabankans (2,5 prósent) út spátímann. Gert er ráð fyrir að verðbólga verði að meðaltali 7,4 prósent í ár, 5,8 prósent á næsta ári og 4 prósent árið 2024.
  • Spáin gerir ráð fyrir að stýrivextir muni hækka talsvert á þessu ári og verði 6 prósent í árslok. Á næsta ári gætu vaxtalækkanir farið að sjást og er því spáð að stýrivextir verði 5,5 prósent við árslok 2023 og 4 prósent í lok árs 2024.
  • Íbúðaverð hefur hækkað mikið. Landsbankinn gerir ráð fyrir að nokkurs konar þolmörkum hafi verið náð og að nú megi búast við hægari vexti. Gert er ráð fyrir 20 prósenta hækkun í ár, milli ársmeðaltala, 8 prósent á næsta ári og 4 prósent árið 2024.
  • Samkvæmt fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar á að draga úr hallarekstri ríkissjóðs á spátímanum. Það sé ástæðan fyrir því að bankinn spái nokkuð hægum vexti samneyslu, eða 1,5 prósent árlega, út spátímann.